Vanir að leika til úrslita

Orri Blöndal á góðri stundu með SA.
Orri Blöndal á góðri stundu með SA. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Íslandsmeistarar síðustu fjögurra ára, leikmenn Skautafélags Akureyrar, eru í raunverulegri hættu á að komast ekki í úrslitakeppni Hertz-deildar karla í ár. SA hefur unnið 19 af 25 Íslandsmeistaratitlum frá því fyrsti titillinn vannst árið 1992, en á nú í harðri baráttu við Björninn um 2. sæti deildarinnar eftir að UMFK Esja tryggði sér deildarmeistaratitilinn.

SA bætti stöðu sína umtalsvert á laugardag þegar liðið vann Björninn 5:0 í fyrri leiknum af tveimur sem liðin leika á Akureyri. Sá seinni fer fram á morgun. Eftir þann leik eiga liðin eftir tvo leiki hvort, við Esju og SR. Með sigrinum í gær jafnaði SA Björninn að stigum. Orri Blöndal er einn fjölmargra leikmanna SA sem varla þekkja annað en að spila í úrslitakeppni á vorin:

„Það getur auðvitað alveg gerst [að við missum af henni núna], sérstaklega ef við töpum á þriðjudaginn [á morgun]. Vonandi gerist það ekki. En þó að við vinnum eru samt fleiri leikir eftir og við þyrftum alla vega að vinna SR og vonandi Esju líka til að komast í úrslitakeppnina,“ sagði Orri.

„Við höfum einu sinni áður ekki komist í úrslitakeppnina og þá vann Björninn titilinn. Maður er vanur því að komast í úrslitakeppnina á hverju ári. Það hefur maður sjálfur gert sjö sinnum á átta árum. En við þurfum bara að berjast fyrir þessu eins og aðrir,“ bætti Orri við. 

Nánar er rætt við Orra Blöndal í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert