Þetta var frábær úrslitakeppni

Anna Sonja Ágústsdóttir.
Anna Sonja Ágústsdóttir. mbl.is/Þórir Ó. Tryggvason

Anna Sonja Ágústsdóttir var fyrirliði Ásynja í kvöld þar sem Linda Brá Sveinsdóttir gat ekki leikið vegna meiðsla. Þurfti hún að sætta sig við tap í úrslitaleik gegn Ynjum en í því liði eru leikmenn á aldrinum 12-17 ára.

Hvernig er að horfa á Ynjurnar lyfta bikarnum?

„Ég get alveg samglaðst þeim. Þetta eru stelpurnar okkar. Auðvitað er fúlt að tapa. Við verðum samt að hafa gaman af því að tvö lið Skautafélags Akureyrar hafi verið að berjast um titilinn. Þetta er framtíðin og bara flott hjá þeim.“

Kom framtíðin ekki aðeins of snemma?

„Ha, ha, jú okkur finnst það. Það er kannski bara lélegt uppeldi að láta þær vinna okkur. Við spiluðum góðan leik í kvöld og gátum alveg eins unnið en pökkurinn vildi ekki inn. Þær aftur á móti náðu því og því fór þetta svona. Við stjórnuðum leiknum lengstum og áttum drullugóðan leik. Það skilaði sér ekki, því miður. Það eina sem skiptir máli er að halda titlinum í bænum. Það var drullað yfir okkur þegar við sameinuðum liðin í úrslitunum í fyrra. Það ýtti undir að við yrðum með tvö lið núna og mér finnst frábært að við gátum sýnt það að við erum með langbestu liðin. Hin liðin komast ekkert í úrslitakeppnina þegar þetta er svona svo verði þeim að góðu. Ég hef ekki spilað svona skemmtilega úrslitakeppni lengi. Þetta var frábær úrslitakeppni og ekki hægt að biðja um meira.“

Ekki tvo leiki í viðbót?

„Ég er ekki viss um að við þessar gömlu hefðum haldið það út. Ekki hafa það eftir mér,“ sagði Anna Sonja skellihlæjandi að skilnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert