„Uppeldið tókst vel“

Silvía Rán Björgvinsdóttir skoraði þrjú mörk þegar Ynjur gjörsigruðu Björninn …
Silvía Rán Björgvinsdóttir skoraði þrjú mörk þegar Ynjur gjörsigruðu Björninn í kvöld. Ljósmynd / Þórir Ó. Tryggvason

Silvía Rán Björgvinsdóttir er að öðrum ólöstuðum besti íshokkíleikmaður í kvennadeildinni á Íslandi. Hún átti frábæra seríu í úrslitakeppninni þar sem lið hennar, Ynjur, lögðu Ásynjur að velli með tveimur sigrum gegn einum.

Eftir úrslitaleikinn, sem fór 4:1, var ekki úr vegi að ræða við Silvíu um keppnina og hið bráðunga lið Ynjanna.

Það var kjaftur á þessum gömlu eftir síðasta leik.

„Já, það má nú segja það. Það varð bara til þess að maður reif sig upp og kom sér í gang. Að taka út einhverjar stjörnur hjá okkur. Ég veit ekki hvaða stjörnur verið var að tala um. Við erum náttúrulega bara lið. Það er einn lykillinn að þessum árangri. Við tengjumst rosalega vel, bæði innan og utan vallar. Við erum rosalega góðar vinkonur og það skiptir miklu máli upp á árangurinn.“

Þú ert aldursforseti liðsins, 17 ára.

„Jú ég er elst. Svo eru þrjár árinu yngri en ég. Restin er svo á grunnskólaaldri. Í byrjun tímabilsins var meðalaldur leikmanna um 14 ár en í Ásynjum var meðalaldurinn tvöfalt hærri.“

Nú hefur þú mikla reynslu í úrslitakeppninni. Hefur spilað með sameiginlegu liði SA í úrslitum gegn Birninum síðustu ár. Hvernig var þessi keppni í samanburðinum?

„Þetta hefur varla verið úrslitakeppni síðustu ár. Þegar þú ert að vinna 8:1 í úrslitum þá er það ekki eðlilegt. Þetta var alvöru keppni tveggja jafnra liða sem gat farið alla vega. Það er líka meiri rígur í kringum þetta. Þótt við séum allar í sama félagi og séum miklar vinkonur þá er ekkert gefið inni á vellinum og við látum hverjar aðrar heyra það. Svo setjumst við allar saman eftir leiki og spjöllum og höfum gaman. Við gerðum það alla vega eftir síðasta leik.“

Þið lítið kannski líka á Ásynjurnar sem hálfgerða uppalendur.

„Jú sumar. Birnu og Guggu t.d. Alveg klárlega. Það er gott að geta sýnt þeim að uppeldið hjá þeim hefur tekist vel. Þær sjá okkur mjög ungar og fylgjast með okkur alast upp á svellinu. Þær geta verið stoltar í dag þrátt fyrir tap,“ sagði hin frábæra Silvía Rán að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert