Held þetta smelli fyrir norðan

Andri Sverrisson úr Esju og Ingvar Jónsson fyrirliði SA í …
Andri Sverrisson úr Esju og Ingvar Jónsson fyrirliði SA í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

Sigurður Sigurðarson, leikmaður SA, var að sjálfsögðu svekktur eftir 4:3 tap gegn Esju í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí í kvöld. 

Staðan var 3:0 Esju í vil fyrir síðasta leikhlutann en SA náði að jafna í 3:3 og tryggja sér framlengingu. Þar skoraði Esja hins vegar eina markið og tryggði sér sigur. 

„Þetta fór að ganga aðeins betur í 3. leikhluta og það kom kraftur í liðið. Við vorum undir og við ætluðum ekki að láta valta yfir okkur. Við náðum að jafna leikinn og höfðum smá meðbyr og það var leiðinlegt að missa þetta niður í framlengingunni.“

„Við hefðum getað verið búnir að skora fyrr en markmaðurinn þeirra átti góðan leik. Við nýttum ekki tækifærin, en með smá heppni hefðum við getað skorað meira. Við höfðum trú á þessu og við vissum að þetta væri ekki búið þó að við værum 3:0 undir.“

„Framlengingin er hálfgert lottó. Þetta var jafn leikur út í gegn og þetta var skot í gegnum menn sem endaði í stönginni og inn.“

Esja er búin að hafa mikla yfirburði í vetur en Sigurði finnst SA geta gert betur. 

„Þeir eru búnir að vera að standa sig vel í vetur og við förum inn í þetta sem „underdogs“ og við þurfum að sýna að við getum gert betur en við höfum gert í vetur, það tókst ágætlega núna en ekki nógu vel.“

Hvað þarf að gerast í öðrum leiknum á Akureyri á fimmtudag? 

„Við þurfum að halda áfram með það sem við höfum verið að gera, við verðum að vera þéttari og ákveðnari. Ég held að þetta smelli fyrir norðan á heimavelli,“ sagði hann. 

Sigurður Sigurðsson með pökkinn.
Sigurður Sigurðsson með pökkinn. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert