Sem betur fer var þetta helvíti fínt

Björn Róbert Sigurðarson var hetja Esju í dag.
Björn Róbert Sigurðarson var hetja Esju í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Björn Róbert Sigurðarson skoraði sigurmark Esju gegn SA í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí. Markið kom í framlengingu, en staðan var 3:3 eftir venjulegan leiktíma. 

Esja komst í 3:0 fyrir síðasta leikhlutann, en þar skoraði SA þrjú mörk og jafnaði leikinn. 

„Við héldum að leikurinn væri búinn í stöðunni 3:0 og við slökuðum á. Við vorum drulluslappir í 3. leikhluta. Það var hins vegar sterkt að klára þetta. Við gáfum þeim of mikið pláss, við bökkuðum fullmikið í staðinn fyrir að halda pressunni sem kom okkur í þessa stöðu til að byrja með. Við vorum ekki tilbúnir í kraftinn frá þeim.“

„Það á aldrei að afskrifa SA. Þetta eru jöfn lið og þessir leikir geta farið á hvorn veginn sem er, eins og sást í kvöld.“

Björn viðurkennir að hann hafi einfaldlega vonað það besta er hann skoraði sigurmarkið. 

„Ég reyndi að skjóta á markið og vona það besta, sem betur fer var það helvíti fínt. Það þurfti eitthvað að gerast og það var gott að geta klárað þetta í lokin.“

Hvernig sér hann fyrir sér annan leik liðanna sem fram fer á Akureyri á fimmtudag?

„Við þurfum að vera á tánum allan leikinn. Við megum ekkert gefa eftir og við verðum að spila vel allan leikinn,“ sagði hetja Esju í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert