Draumabyrjun Íslands á HM

Íslenska karlalandsliðið í íshokkíi byrjar A-riðil heimsmeistaramótsins í Galati í Rúmeníu sannarlega eins og best verður á kosið, en liðið vann 3:2-sigur á Spánverjum í fyrsta leik sínum á mótinu í dag. 

Ísland byrjaði leikinn hreint óaðfinnanlega, því strax eftir sjö sekúndur skoraði Pétur Maack. Ísland vann þá pökkinn í byrjun leiks, sótti að markinu og skoraði. Sannkölluð draumabyrjun og fljótasta mark Íslands síðan á HM 2011.

Spánverjarnir jöfnuðu þegar fimm mínútur voru liðnar, og undirstrikar það fjörið í upphafi leiks. Íslensku strákarnir voru sendir þrisvar í refsiboxið í leikhlutanum en Spánverjarnir einu sinni. En það var einmitt einum fleiri sem Ísland komst yfir á ný strax á 8. mínútu. Jóhann Már Leifsson rak þá endahnútinn á góða pressu íslenska liðsins. Staðan 2:1 eftir fyrsta leikhluta.

Í öðrum leikhluta fækkaði brottvísununum og meiri ró færðist yfir leikinn. Þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum komust Spánverjarnir þó yfir á ný og það var í kjölfar einu brottvísunar íslenska liðsins í leikhlutanum.

En rétt eins og áður var íslenska liðið ekki lengi að jafna, en það gerði Róbert Freyr Pálsson eftir vel útfærða sókn undir lok leikhlutans og staðan að honum loknum 3:2 fyrir Ísland.

Spænska liðið pressaði alveg hreint gríðarlega í þriðja hluta og freistaði þess að jafna. Um miðbik hlutans var Ísland einum færri þegar Andri Már Mikaelsson var felldur og víti dæmt. Andri ætlaði sér að fífla spænska markmanninn í vítaskotinu, sem gekk ekki, og spennan því ennþá mikil fyrir lokaátökin.

Pressa Spánverja var gríðarleg en samheldnin í íslenska liðinu var mögnuð og liðið hélt út til enda. Lokatölur 3:2 fyrir Íslandi og sannkölluð draumabyrjun á HM staðreynd.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu frá Galati hér á mbl.is, en viðtöl birtast hér á vefnum síðar í dag og í Morgunblaðinu á morgun.

Spánn 2:3 Ísland opna loka
60. mín. Spánn Textalýsing Mínúta eftir og Ísland með fullskipað lið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert