Sögulegur sigur Íslands á Rúmeníu

Dennis Hedström ver gegn Rúmeníu í dag. Úlfar Jón Andrésson …
Dennis Hedström ver gegn Rúmeníu í dag. Úlfar Jón Andrésson og Ingvar Þór Jónsson fylgjast með í vörninni. Ljósmynd/Sorin Pana

Íslenska karlalandsliðið í íshokkí gerði sér lítið fyrir og vann gestgjafa Rúmeníu, 2:0, þegar liðin áttust við í A-riðli 2. deildar HM í Galati í kvöld. Þetta var í fyrsta sinn sem A-landslið Íslands vinnur Rúmeníu í íshokkí.

Rúmenar byrjuðu leikinn af miklum krafti fyrir framan á annað þúsund stuðningsmenn sína í Galati. Frá byrjun var íslenska liðið hins vegar vel skipulagt og fékk góðar skyndisóknir, en staðan eftir fyrsta leikhluta var markalaus.

Þó Rúmenar hafi sótt meira var íslenska liðið langt því frá lakari aðilinn og komst yfir á 25. mínútu eftir virkilega vel útfærða skyndisókn. Eftir skot að marki barst frákastið á Kristján Albert Kristinsson sem var áræðinn á fjærstönginni og kom pökknum í netið. Staðan 1:0 fyrir Ísland.

Það virtist pirra heimamenn mikið en að sama skapi efla íslensku strákana. Enn var það Rúmenía sem sótti meira, en íslenska liðsheildin hélt velli og vel það. Ísland var því 1:0 yfir fyrir þriðja og síðasta leikhlutann.

Það var gripinn um sig enn meiri pirringur hjá heimamönnum í þriðja leikhluta, en íslenska liðið hélt góðu skipulagi sínu. Enn voru það Rúmenar sem fengu hættulegri færi, en með Dennis Hedström kattliðugan í markinu komust þeir lítt áleiðis.

Það var svo fimm mínútum fyrir leikslok sem ísland bætti við öðru marki sínu, aftur eftir frábæra skyndisókn. Robin Hedström átti þá laglega stungusendingu á Aron Knútsson sem kom á ferðinni, skautaði að marki og skoraði. Staðan 2:0 og annars háværir rúmenskir áhorfendur steinþögnuðu.

Heimamenn reyndu hvað þeir gátu að koma til baka eftir þetta en strákarnir okkar héldu nú ekki og uppskáru magnaðan sigur, 2:0. Ísland og Rúmenía eru nú bæði með 6 stig en Ástralir eru á toppnum með 8 stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu mbl.is frá Galati, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun. Þá birtast viðtöl hér á vefnum síðar í kvöld.

Rúmenía 0:2 Ísland opna loka
60. mín. Zoltan Toke (Rúmenía) Textalýsing 20 sekúndur!!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert