Það var ekkert í lagi

Fyrirliðinn Ingvar Þór Jónsson reynir hér að stöðva leikmann Belgíu …
Fyrirliðinn Ingvar Þór Jónsson reynir hér að stöðva leikmann Belgíu í viðureign þjóðanna í Galati í gærkvöldi þar sem Ísland tapaði stórt. Ljósmynd/Sorin Pana

„Það verður ekkert mál að rífa sig upp eftir þetta. Ég held að menn verði bara hungraðir að sanna sig eftir svona frammistöðu,“ sagði Ingvar Þór Jónsson, landsliðsfyrirliði í íshokkí, þegar Morgunblaðið tók hann tali skömmu eftir að Ísland hafði tapað illa fyrir Belgíu, 9:3, í A-riðli 2. deildar HM sem fram fer í Galati í Rúmeníu.

Kvöldið áður hafði Ísland unnið frækinn sigur á Rúmeníu, þann fyrsta í sögunni, en það var allt annað lið sem var á ísnum í gær eins og lokatölurnar gefa glögglega til kynna. Voru leikmenn enn með hausinn í skýjunum eftir frammistöðuna kvöldið áður?

„Mér fannst það ekki en ég hreinlega veit það ekki. Kannski var það andlega hliðin sem klikkaði frekar en sú líkamlega, þótt það hafi verið góð stemning fyrir leikinn. Allt sem við gerðum þegar við vorum ekki með pökkinn var í ólagi. Hvort sem þeir voru með hann eða liðsfélagi var með hann sinntum við ekki þeim hluta leiksins nægilega vel,“ sagði Ingvar, hreinlega gáttaður á frammistöðunni.

Íslenska liðið lenti 3:0 undir strax eftir stundarfjórðung en náði að jafna í 3:3 í öðrum leikhluta. Eftir það hreinlega hrundi leikur liðsins.

„Þeir náðu að svara því fljótlega, en það hefði verið flott að ná að halda þessu í 3:3 aðeins lengur. Belgarnir byrjuðu mjög sterkt í fyrstu lotu en við vorum á hælunum og skrefi á eftir. Hefðum við svarað því strax hefði þetta kannski orðið annar leikur, en það er mikið ef og hefði í þessu,“ sagði Ingvar við Morgunblaðið í Galati.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert