Ísland fékk skell og missti af bronsinu

Mikil barátta fyrir framan mark Serba í leiknum í dag …
Mikil barátta fyrir framan mark Serba í leiknum í dag og hér er Ólafur Hrafn Björnsson með pökkinn Ljósmynd/Sorin Pana

Íslenska karlalandsliðið í íshokkíi hafnaði í 5. sæti í A-riðli 2. deildar HM í íshokkíi sem fram fór í Galati í Rúmeníu. Ísland tapaði afar illa fyrir Serbíu í lokaleik sínum í dag, 6:0, en sigur hefði tryggt Íslandi bronsverðlaun. Þess í stað er næstneðsta sætið staðreynd, þriðja mótið í röð.

Strax á fjórðu mínútu fékk liðið á sig sannkallað aulamark. Serbar hreinsuðu pökkinn þá langt fram og Dennis Hedström kom úr markinu gegn sóknarmanni og ætlaði að slá pökkinn frá. Dennis missti hins vegar af honum og eftirleikurinn var auðveldur fyrir framan tómt mark Íslands.

Við þetta datt botninn svo að segja alveg úr leik íslenska liðsins og Serbar bættu tveimur mörkum við í fyrsta leikhlutanum en staðan að honum loknum var 3:0 og strákarnir sannarlega með bakið uppi við vegg.

Lengi getur vont versnað

Og staðan hélt áfram að versna í öðrum leikhluta. Serbar bættu við marki með skoti af löngu færi og svo fimmta markinu í skyndisókn eftir að Ísland hafði verið í þungri sókn. Staðan 5:0 og þannig var hún fyrir þriðja og síðasta leikhlutann.

Ísland sýndi það á móti Belgíu á föstudag að lengi getur  vont versnað og það gerði það svo sannarlega í upphafi þriðja leikhluta. Strax á fyrstu mínútu hans skoruðu Serbar sjötta markið og lánleysi íslenska liðsins algjört. Ísland náði ekki að klóra í bakkann og niðurstaðan 6:0 tap í lokaleiknum á HM.

Ísland hafnaði því í 5. sæti og því næstneðsta þriðja árið í röð, en Serbar tryggðu sér bronsverðlaun með þessum sigri.  Úrslitin þýða jafnframt að Spánn, silfurlið síðasta heimsmeistaramóts, er fallið og spilar því í B-riðli 2. deildar að ári. Rúmenía og Spánn eigast við í síðasta leik mótsins þar sem sigur tryggir Rúmenum efsta sætið.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is frá Galati, en viðbrögð koma hér á vefinn síðar í dag auk þess sem nánar er fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun.

Serbía 6:0 Ísland opna loka
60. mín. Serbía Textalýsing Framundan er síðasta mínúta Íslands á þessu heimsmeistaramóti hér í Galati.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert