Frá NHL-deildinni til íslenska landsliðsins

Emanuel Sanfilippo er hér einbeittur á varamannabekk Íslands á æfingu …
Emanuel Sanfilippo er hér einbeittur á varamannabekk Íslands á æfingu í Galati. mbl.is/Andri Yrkill

Hann var í sjúkrateymi Philadelphia Flyers í NHL-deildinni, sterkustu hokkídeild í heimi, og fylgdi nú íslenska karlalandsliðinu á HM í Rúmeníu sem lauk í gær. Hann hefur þó hvorki komið til Íslands né sjálfur stigið á skauta.

Þetta er hann Emanuel Sanfilippo, eða Manny eins og hann er kallaður, sem situr brosandi hjá blaðamanni á hóteli íslenska liðsins í Galati í Rúmeníu. Það er létt yfir honum eins og venjulega, enda ekki að ósekju að hann er vinsæll hjá íslensku strákunum. Og sjálfur er hann mjög ánægður að vera í kringum íslenska liðið.

„Ég vonast til þess að heimsækja Ísland einn daginn. Það er svolítið fyndið, að vinna fyrir Ísland en hafa aldrei komið þangað. En ef andrúmsloftið þar er eitthvað í líkingu við það sem er í kringum strákana hér þá myndi ég elska það. Þetta er virkilega skemmtilegur hópur og strákarnir eru mjög góðir fulltrúar fyrir land og þjóð,“ segir Manny.

Þetta er raunar í annað sinn sem Manny fylgir Íslandi á HM, en hann var einnig liðslæknirinn á HM í Króatíu árið 2013. Hann þekkir þáverandi landsliðsþjálfara, David MacIsaac, frá tíma sínum hjá Philadelphia Flyers og var fenginn með til Króatíu, en hvernig kom það til að hann sneri aftur nú fjórum árum síðar?

Emanuel Sanfilippo stendur brosmildur á varamannabekk Íslands á HM í …
Emanuel Sanfilippo stendur brosmildur á varamannabekk Íslands á HM í Rúmeníu. Ljósmynd/Christian Aurel

Stökk til á ögurstundu

„Ég fékk tölvupróst frá Sigga [Sigga Sig. liðsstjóra] um tveimur vikum fyrir mótið þar sem hann sagðist vanta liðslækni og að hann gæti virkilega notað mig. Ég sagðist ætla að gefa honum svar innan sólarhrings, en tveimur tímum síðar var ég búinn að tala við konuna mína og hún sagði mér bara að fara. Svo ég sló til,“ segir Manny, en vissi þó lítið við hverju ætti að búast.

„Mér finnst virkilega skemmtilegt að vera í kringum strákana. Ég vissi ekkert við hverju ég ætti að búast núna, hafði aldrei hitt þjálfarann og vissi ekki hvort þetta yrði alveg nýtt lið. En mér fannst gaman að sjá að það eru margir leikmenn í hópnum núna sem ég kynntist fyrir fjórum árum,“ segir hann.

Öðruvísi að vera í kringum íslenska landsliðið

Sem áður segir var hann í læknateymi Philadelphia Flyers í NHL-deildinni, en hann var í kringum liðið um fimm ára skeið á árunum 2004-2009. Saknar hann þess tíma?

„Ég sakna strákanna og einmitt þess vegna finnst mér svo gaman að vera með íslenska liðinu. Ég sakna þess að vera í kringum íshokkíleikmenn, en það getur verið mjög stressandi að vera hjá stóru liði þar sem allt snýst um peninga,“ sagði Manny og segir kærkomið að komast í öðruvísi andrúmsloft í íþróttinni.

„Hér er staðan önnur, það vilja að sjálfsögðu allir vinna en við getum þó tekist í hendur og óskað hver öðrum góðs gengis. Það er því alls ekki eins stressandi, þó að lífið í NHL sé vissulega mjög glæsilegt,“ segir Manny og tekur dæmi:

Alltaf fyrsta farrými og glæsilegustu hótelin

„Þú flýgur á fyrsta farrými, dvelur á bestu hótelunum á hverjum stað og það er hugsað fyrir öllu fyrir þig. Leikmenn í NHL-deildinni lifa eins og rokkstjörnur og þeir þurfa ekki að gera neitt annað en að mæta. Allt frá nærfötunum þeirra til jakkafata, þá er allt þvegið og græjað fyrir þá og haft tilbúið í klefanum. Þeir þurfa ekki einu sinni að halda á sinni eigin tösku,“ segir Manny og hristir hausinn.

Bergur Árni Einarsson fær aðhlynningu hjá Emanuel Sanfilippo á æfingu …
Bergur Árni Einarsson fær aðhlynningu hjá Emanuel Sanfilippo á æfingu Íslands í Galati. mbl.is/Andri Yrkill

Þrátt fyrir að hann segi að lífið í NHL-deildinni geti farið út í öfgar segist hann aldrei vilja vinna í kringum aðra íþrótt en hokkí.

„Það er mikill munur á íshokkíleikmönnum og til dæmis fótboltamönnum eða körfuboltamönnum. Margir íþróttamenn verða svo miklar prímadonnur, en í hokkíinu þarftu alltaf að vera á tánum. Meira að segja bestu leikmennirnir þurfa að hafa áhyggjur af því að missa stöðu sína ef þeir spila ekki nægilega vel. Ég held að þeir leggi því harðar að sér að komast á toppinn og kunni betur að meta það þegar það tekst. Ég held að það móti persónuleikann þeirra,“ segir Manny.

Myndi elska að fylgja Íslandi aftur

Manny hefur, þrátt fyrir alla sína reynslu í íshokkíheiminum, þó aldrei stigið sjálfur á skauta.

„Nei, ég hef aldrei prófað skauta! Strákarnir hjá Flyers voru oft að grínast með það að þeir myndu binda mig niður, setja á mig skauta og henda mér á ísinn,“ sagði Manny og hló. „Ég er orðinn 54 ára og held ég myndi bara ökklabrjóta mig eða eitthvað þaðan af verra.“

En þrátt fyrir að vera liðslæknir Íslands í annað sinn á heimsmeistaramóti er hann þó ekki læknir heldur hnykkjari (e. chiropractor) að mennt. Hann rekur sína eigin stofu í Philadelphia og setti því allt til hliðar til þess að koma til Rúmeníu.

„Þetta er vissulega stressandi, að taka frí frá vinnu og hafa þá enga innkomu fyrir fjölskylduna. En ég myndi elska að fylgja íslenska landsliðinu aftur ef mér yrði boðið það. Sjáumst á næsta ári!“ sagði Emanuel Sanfilippo, Manny, að lokum við mbl.is í Galati.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert