Sannar sig sem einn sá besti í sögunni

Sidney Crosby með hinn eftirsótta Stanley-bikar.
Sidney Crosby með hinn eftirsótta Stanley-bikar. AFP

Kanadamaðurinn Sidney Crosby er á allra vörum eftir að Pittsburgh Penguins tryggði sér hinn eftirsótta Stanley-bikar sem meistarar NHL-deildarinnar í íshokkí í fyrrinótt. Crosby var valinn verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar þar sem Pittsburgh vann Nashville Predators í sex leikja seríu, 4:2.

Crosby var valinn bestur annað árið í röð og er það aðeins í þriðja sinn í sögu NHL-deildarinnar sem leikmaður afrekar það. Aðeins landar hans Bernie Parent, árin 1974 og 1975, og Mario Lemieux, árin 1991 og 1992, hafa afrekað þetta. Viðurkenningin er enn ein rósin í hnappagat Crosby, sem var að vinna Stanley-bikarinn í þriðja sinn og er einnig með tvö Ólympíugull, heimsmeistaratitla og ótal sigra á ferilskránni, svo eitthvað sé nefnt.

Crosby var markahæsti leikmaður NHL-deildarkeppninnar með 44 mörk, og bætti átta mörkum við í úrslitakeppninni. Crosby er einnig fyrsti leikmaðurinn sem vinnur titilinn eftir að hafa verið markahæstur í deildinni síðan Wayne Gretzky gerði slíkt hið sama vorið 1987 – sem er einmitt fæðingarár Crosby.

Magnað að afreka þetta

„Við náðum að verða betri með hverjum leik í úrslitakeppninni. Þetta var okkar markmið frá því að tímabilið hófst, við vissum að þetta hefði ekki verið gert lengi og að hafa afrekað það er mögnuð tilfinning,“ sagði Crosby eftir sigurinn og vísaði til þess að Pittsburgh var þarna að vinna titilinn annað árið í röð. Það gerðist síðast fyrir 19 árum þegar Detroit Red Wings vann tvö ár í röð.

Vinni Pittsburgh titilinn þriðja árið í röð á næsta ári verður liðið það fyrsta sem afrekar það frá sigurgöngu New York Islanders á árunum 1980-1983.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert