Munaði minnstu að félagið yrði lagt niður í fyrra

Esja varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í vor, þremur árum …
Esja varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í vor, þremur árum eftir stofnun félagsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Árið 2014 sameinuðust nokkrir ungir menn um að koma á fót nýju íshokkífélagi. UMFK Esja hefur frá upphafi þurft að berjast fyrir tilveru sinni og í fyrra var útlit fyrir að félagið yrði lagt niður. Sú varð ekki raunin og fyrr á þessu ári fagnaði Esja sínum fyrstu titlum; fyrst deildarmeistaratitli af fádæma öryggi og svo Íslandsmeistaratitli eftir 3:0-sigur á nítjánföldum meisturum Skautafélags Akureyrar.

Í lok þessa mánaðar verður Esja fyrst íslenskra félagsliða til að taka þátt í Evrópukeppni í íshokkíi, þegar mannskapurinn heldur til Belgrad í Serbíu, en framtíð félagsins er hins vegar í óvissu rétt eins og síðasta sumar. Morgunblaðið ræddi um Esju við fyrsta formanninn og einn af stofnendunum; Gunnar Viðar Árnason, sem nú er gjaldkeri félagsins.

„Við fórum af stað 2014. Gauti Þormóðsson, fyrrverandi þjálfari liðsins, viðraði þá hugmynd við mig að stofna nýtt lið. Þetta var fjarlægur draumur í fyrstu, en við fórum af stað og sáum að við þyrftum að komast í samstarf við eitthvert ungmennafélag. Við höfðum samband við Ungmennafélag Kjalarness, sem tók vel í þetta,“ segir Gunnar.

„Við höfðum svo samband við stráka sem voru hættir og höfðu misst áhugann á keppninni hér heima, þar sem voru alltaf bara sömu þrjú liðin að spila. Það voru einhverjir sex eða sjö hættir sem komu inn og svo kom ákveðin hryggjarsúla úr Birninum; sex strákar sem voru tilbúnir að fórna ansi miklu því Björninn stóð vel á þessum tíma,“ segir Gunnar.

Sautján hófu fyrsta tímabilið

„Við hófum fyrsta tímabilið 15 saman, auk tveggja útlendinga, sem er rosalega þunnskipaður hópur, og fengum æfingatíma frá hálfellefu til hálftólf á kvöldin, þann lélegasta sem völ var á, sem var kannski eðlilegt því við vorum bara að koma nýir inn. Við fengum engan búningsklefa sem bækistöð fyrir okkur, svo strákarnir þurftu alltaf að rogast á milli með allan þennan búnað sem fylgir íþróttinni, og við þurftum að borga alla tíma á svellinu sjálfir fyrsta árið því við fengum enga styrki. En við gerðum góða skemmtun úr þessu, náðum að vinna einn og einn leik, en enduðum samt langneðstir,“ segir Gunnar.

Nánar er fjallað um sögu og uppgang Esju í ítarlegri umfjöllun í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert