Óvæntur sigur Bjarnarins á Esju

Frá viðureign Esju og Bjarnarins í kvöld.
Frá viðureign Esju og Bjarnarins í kvöld. mbl.is/Golli

Björninn vann óvæntan 3:2 sigur á Íslandsmeisturum Esju í þriðju umferð Hertz-deildar karla í íshokkí í Skautahöll Reykjavíkur í kvöld. Fyrir leikinn hafði Esja unnið báða leiki sína á meðan Björninn hafði unnið einn og tapað einum.

Leikmenn Bjarnarins fóru mjög vel af stað og skoraði Andri Helgason eftir aðeins tvær mínútur eftir sendingu Birkis Árnasonar. Björninn hélt áfram að sækja og var staðan orðin 2:0 eftir 11 mínútur. Ingþór Árnason skoraði þá af öryggi eftir sendingu Aimas Fiscevas. Mikil harka var í leiknum og þurftu tveir leikmenn Bjarnarins og einn leikmaður Esju að fara af velli vegna meiðsla í 1. leikhluta en staðan að honum loknum var 2:0, þrátt fyrir fjölda góðra færa beggja liða til að skora fleiri mörk.

Esjumenn reyndu allt hvað þeir gátu til að minnka muninn í öðrum leikhluta en það var hins vegar Björninn sem bætti í forskotið. Sigursteinn Sighvatsson skoraði af stuttu færi á 36. mínútu og reyndist það eina markið í 2. leikhluta. Staða Bjarnarins var því vænleg fyrir þriðja og síðasta leikhlutann.

Jón Óskarsson minnkaði muninn fyrir Esju eftir aðeins tvær mínútur í 3. leikhluta eftir slæm mistök Ómars Skúlasonar í marki Bjarnarins. Hann gaf þá beint á Egil Þormóðsson sem sendi á Jón sem skoraði af öryggi. Andri Sverrisson minnkaði svo muninn enn frekar, mínútum fyrir leikslok, og stefndi í æsispennandi lokamínútur. Þrátt fyrir ágæta möguleika tókst Esju ekki að jafna og Björninn vann góðan sigur.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is.

Esja 2:3 Björninn opna loka
60. mín. Esja Textalýsing 53 sekúndur eftir og spennan í Skautahöll Reykjavíkur er svakaleg.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert