Búið að ráða nýjan landsliðsþjálfara

Vladimír Kolek og Árni Geir Jónsson, formaður Íshokkísambands Íslands.
Vladimír Kolek og Árni Geir Jónsson, formaður Íshokkísambands Íslands. Ljósmynd/Íshokkísamband Íslands

Íshokkísambandið hefur ráðið nýjan landsliðsþjálfara karlaliðs Íslands en Tékkinn Vladimír Kolek var kynntur til leiks í dag.

Kolek eða Vladó eins og hann er kallaður er fæddur í Tékklandi 1964 og hefur búið í Finnlandi síðustu 16 árin. Hann hefur unnið þar við þjálfun nokkurra liða sem aðalþjálfari, verið yfirþjálfari nokkurra íþróttaklúbba og aðstoðað finnska íshokkísambandið með uppbyggingu íþróttarinnar. Vladó var einnig leikmaður í Finnlandi, Svíþjóð, Þýskalandi og Tékklandi á árum áður. 

Kolek mun stýra þjálfun landsliðs karla í íshokkí og vera öðrum íshokkíþjálfurum innan handar hér á landi. Hann mun einnig koma að þróun og uppbyggingu íshokkí allra aðildarfélaga ÍHÍ.

Kolek tekur við af Svíanum Magnus Blårand sem hætti störfum eftir HM í Rúmeníu í vor þegar samningur hans rann út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert