„Auðvelt að dæma uppi í stúku“

„Þetta var erfiðara en ég bjóst við, en það þýðir ekkert að slaka á og núna eru tveir leikir eftir af mótinu,“ sagði Róbert Freyr Pálsson, fyrirliði Esju, eftir fyrsta Evrópuleik félagsins en liðið tapaði 6:1 fyrir Rauðu stjörnunni í Belgrad í kvöld.

„Serbarnir voru mjög góðir, skipulagðir og áttu mjög góðan fyrsta leikhluta. Mér fannst við betri í öðrum leikhluta en síðan náðu þeir inn marki snemma í þriðja leikhluta, slökktu eiginlega í okkur og þá var leikurinn bara búinn,“ sagði Róbert, en staðan fyrir lokaþriðjunginn var 3:1.

Esja mætir næst búlgörsku meisturunum á morgun kl. 14 að íslenskum tíma, og svo tyrknesku meisturunum á sunnudag.

„Við sáum aðeins af leiknum hjá þessum liðum í dag [sem Tyrkirnir unnu 4:3] og persónulega fannst mér þau slakari en við, en það er alltaf auðvelt að dæma uppi í stúku,“ sagði Róbert.

Nánar er rætt við Róbert í meðfylgjandi myndskeiði. Mbl.is er með Esju í Belgrad og fylgist grannt með gangi mála þar til að mótinu lýkur á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert