„Búinn í löppunum eftir tvo leikhluta“

„Við vorum allt of seinir í gang.  Við ætluðum að vera varnarsinnaðri og beita skyndisóknum, en það var mjög erfitt að lenda 3:0 undir,“ segir Jón Andri Óskarsson, leikmaður Esju, eftir 6:1-tapið gegn Rauðu stjörnunni í fyrsta leiknum í Evrópukeppni félagsliða í Belgrad.

„Við fórum inn í 2. leikhluta af miklum krafti, fengum að vera manni fleiri töluvert í þeim leikhluta, fáum mark og þá menn loksins trú á verkefninu. Staðan var orðin 3:1 og við héldum að við gætum alveg unnið þetta á þeim tímapunkti. En þetta er sterkasta liðið í riðlinum. Auðvitað erum við vonsviknir með 6:1-tap, en við erum samt ánægðir eftir fyrsta Evrópuleikinn okkar. Menn voru auðvitað stressaðir í byrjun en núna er fyrsti leikur búinn, við verðum að hætta að svekkja okkur á þessu og einbeita okkur að næsta leik á morgun,“ segir Jón Andri.

Nánar er rætt við Jón Andra í meðfylgjandi myndskeiði. Mbl.is er í Belgrad og fylgist grannt með gangi mála þar til að mótinu lýkur á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert