SA Víkingar unnu í framlengingu

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

SA vann Esju í æsispennandi, framlengdum leik, 8:7, í Skautahöllinni í Laugardal í Hertz-deild karla í íshokkí í kvöld.

Esja byrjaði leikinn af krafti og komst í tveggja marka forystu þegar fyrsti leikhluti var rúmlega hálfnaður en mörkin skoruðu þeir Jan Semorad og Aron Knútsson. Akureyringar svöruðu þó með tveimur mörkum frá spilandi aðalþjálfara sínum, Jussi Sipponen, en Esjumenn komust strax yfir á  nýjan leik þökk sé marki frá Agli Þormóðssyni, staðan 3:2 eftir fyrsta leikhluta.

Annar leikhluti fór rólega af stað þangað til að Einar Sveinn Guðnason fékk tveggja mínútna brottvísun í liði Esjumanna og Norðanmenn nýttu sér þann liðsmun til að jafna en markið gerði Bart Moran. Örfáaum mínútum síðar voru SA menn svo komnir yfir þegar Andri Mikaelsson skoraði af stuttu færi á 34. mínútu. Þeir voru þó ekki lengi í paradís þar sem Jan Semorad jafnaði strax á sömu mínútunni fyrir Esju, staðan 4:4 fyrir síðasta leikhluta leiksins.

Sigurður Sigurðsson kom gestunum yfir snemma í þriðja leikhlutanum en á 48. mínútu jafnaði Robbie Sigurðsson metin. Daniel Kolar kom svo heimamönnum yfir þegar sjö mínútur voru til leiksloka en aftur svöruðu gestirnir frá Akureyri. Jussi Sipponen skoraði sitt þriðja mark og jafnaði metin á 54. mínútu áður en Sigurður Sigurðsson skoraði sitt annað mark þremur mínútum fyrir lok leikhlutans en Esjumenn voru heldur betur ekki búnir.

SA virtist vera með sigurinn í höndum sér þegar pökknum var dúndrað yfir á varnarsvæði Esju með örfáar sekúndur eftir á klukkunni en Petr Kubos lét þá vaða af einhverjum 50 metrum og pökkurinn lak inn í markið þegar ein sekúnda var eftir á klukkunni. Því þurfti að grípa til framlengingar og þar tókst SA Víkingum að sigra með gullmarki frá Ingvari Jónssyni.

SA er áfram á toppnum og nú með 17 stig eftir að hafa fengið tvö stig úr leik kvöldsins. Esjumenn fá eitt stig og eru áfram í þriðja sætinu með 10 stig.

Esja 7:8 SA opna loka
65. mín. Ingvar Jónsson (SA) Mark 7:8 - SA Víkingar eru að vinna þessa framlengingu! Sipponen á skot sem Ingvar Jónsson klárar í markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert