SA með átta stiga forskot á toppnum

Ómar Skúlason í marki Bjarnarins stendur í ströngu í kvöld.
Ómar Skúlason í marki Bjarnarins stendur í ströngu í kvöld. mbl.is/Golli

SA náði átta stiga forskoti á toppi Hertz-deildar karla í íshokkí í kvöld með 4:3-útisigri á Birninum í Egilshöllinni í kvöld. Sigurður Sigurðsson skoraði tvö marka SA og Jussi Sipponen og Ingvar Jónsson bættu við mörkum.

Liðin skiptust á að fá færi í 1. leikhluta sem var opinn og skemmtilegur. Fyrsta markið kom hins vegar ekki fyrr en 40 sekúndum fyrir leikhlé, þá skoraði Sigurður Sigurðsson eftir sendingu frá Orra Blöndal. SA fékk fínt færi til að skora annað mark áður en 1. leikhluti varð allur en Ómar Skúlason í marki Bjarnarins varði frá Jóhanni Leifssyni, en staðan var 1:0 eftir leikhlutann.

SA fór mun betur af stað í 2. leikhluta og fékk fullt af færum og virtist spurning hvenær en ekki hvort annað markið kæmi. Þegar leikhlutinn var hálfnaður var komst Björninn meira inn í leikinn og fengu bæði lið færi til að skora annað mark leiksins. Það kom loks stuttu fyrir lok leikhlutans er Sigurður skoraði sitt annað mark. Það reyndist eina mark leikhlutans og var staðan því 2:0 þegar einn leikhluti var eftir.

3. leikhlutinn fór frekar rólega af stað en Jussi Sipponen, spilandi þjálfari SA, skoraði þriðja markið 13 mínútum fyrir leikslok og þremur mínútum síðar skoraði Ingvar Jónsson með hnitmiðuðu skoti og kom SA í 4:0. Aimas Fiscevas minnkaði muninn með tveimur mörkum seint í leiknum og Úlfar Andrésson skoraði þegar örfáar sekúndur voru til leiksloka en sanngjarn sigur SA varð raunin. 

Björninn 3:4 SA opna loka
60. mín. Þriðja leikhluta lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert