Esja sleit sig vel frá Birninum

Frá leik Esju og Bjarnarins í kvöld.
Frá leik Esju og Bjarnarins í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Algjör lykilleikur í baráttunni um annað sæti Hertz-deildar karla í íshokkí fór fram í Skautahöll Reykjavíkur í kvöld er Esja tók á móti Birninum. Esja vann sanngjarnan 4:1 sigur og styrkti heldur betur stöðu sína í 2. sætinu.

Leikurinn hafði ekki staðið í 40 sekúndur þegar gera þurfti 20 mínútna hlé eftir að Andri Helgason hafði tæklað Egil Þormóðsson í eina rúðuna sem mölbrotnaði. Þegar búið var að skipta um hana var hægt að halda leik áfram og við tók baráttumikill en markalaus fyrsti leikhluti. Bergur Einarsson komst næst því að skora fyrir Björninn en Atli Snær Valdimarsson í marki Esju sá við honum. Hinum megin gerði Jan Semorad sig nokkrum sinnum líklegan en hann fann ekki leið fram hjá Ómari Skúlasyni í markinu.

Í öðrum leikhluta fóru Esjumenn loks að finna leiðir og á 33. mínútu skoraði Jan Semorad fyrsta mark leiksins af stuttu færi. Aðeins tveimur mínútum síðar var forystan svo tvöfölduð þegar Robbie Sigurðsson, markahæsti leikmaður deildarinnar, skoraði frábært mark þegar hann negldi pökknum yfir öxlina á Ómari í markinu og upp í samskeytin.

Bjarnarmenn virtust vera að blása smá spennu í leikinn þegar þeir minnkuðu muninn eftir 17 sekúndur í þriðja leikhluta með marki frá Andra Helgasyni en allt kom fyrir ekki. Robbie Sigurðsson skoraði sitt annað mark á 45. mínútu og innsiglaði þar með sigurinn. Það urðu smá læti undir lokin þegar Birkir Árnason, leikmaður Bjarnarins, og Aron Knútsson í Esju lentu saman og fengu þeir báðir tveggja mínútna brottvísun. Aroni gramdist það eitthvað og hrinti dómaranum sem reyndi að fara á milli þeirra og var hann sendur í sturtu fyrir vikið.

Semorad gulltryggði svo sigurinn í blálokin með sínu öðru marki þegar Björninn hafði tekið markmanninn af velli og sett aukamann inn á. Semorad vann boltann og skoraði í autt mark frá miðlínu.

Með sigrinum fer Esja í 29 stig og er nú stigi frá SA sem á leik til góða. Björninn situr áfram í 3. sætinu með 16 stig, 13 stigum frá sæti í úrslitakeppninni.

Esja 4:1 Björninn opna loka
60. mín. Daniel Kolar (Esja) 2 mín. brottvísun
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert