Haukar vörðu Íslandsmeistaratitilinn

Pálína Guðlaugsdóttir og Helena Sverrisdóttir fagna sigri.
Pálína Guðlaugsdóttir og Helena Sverrisdóttir fagna sigri. mbl.is/Eggert

Haukar tryggðu sér í dag Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik kvenna með því að leggja Keflavík, 88:77. Haukar unnu þrjá leiki en Keflavík einn í úrslitarimmunni en þetta er annað árið í röð sem að Haukar fagna Íslandsmeistaratitlinum.

“Hrikalega erfiður leikur og erfið úrslitakeppni. Ég hef lítið getað sofið vegna spennu. Það var gríðarleg barátta hjá báðum liðum en við fengum mörg sóknarfráköst sem skiptu öllu máli,” sagði Ágúst Björgvinsson þjálfari Hauka í leikslok í sjónvarpsviðtali við RÚV.

Undir hans stjórn sigraði Haukaliðið á öllum mótum sem voru á dagskrá á leiktíðinni. Liðið sigraði í meistarakeppni KKÍ, Lýsingarbikarkeppninni, Powerade-bikarkeppninni. Haukar eru deildarmeistarar og tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í dag.

“Það er frábært að enda tímabilið með þessum hætti og ég held að við höfum haft meiri vilja til þess að sigra,” sagði Helena Sverrisdóttir fyrirliði Hauka í sjónvarpsviðtali eftir leikinn en hún skoraði 29 stig og var valin besti leikmaður úrslitakeppninnar.

Ifeoma Okonkwo var stigahæsti leikmaður Hauka í dag með 32 stig. Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 10 stig fyrir Hauka og Pálína M. Gunnlaugsdóttir skoraði 9 stig.

María B. Erlingsdóttir skoraði 17 stig fyrir Keflavík líkt og TaKesha Watson. Rannveig K. Randversd skoraði 13 stig fyrir Keflavík og Birna I. Valgarðsdóttir skoraði 9 stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert