Grindavík sigraði Snæfell 90:71

Helgi Jónas Guðfinnsson var meira áberandi í leiknum í dag …
Helgi Jónas Guðfinnsson var meira áberandi í leiknum í dag en á þessari mynd. mbl.is/Árni Sæberg

Grindavík sýndi hvað í liðinu býr í dag gegn Snæfell í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar í körfuknattleik. Grindavík var 2:0 undir fyrir leikinn í dag en frá fyrstu mínútu var ljóst að heimamenn ætluðu sér ekki að fara í sumarfrí í dag. Grindavík sigraði með 19 stiga mun, 90:71. Fylgst var með gangi mála á mbl.is.

Staðan í rimmunni er því 2:1 en liðin eigast við að nýju á mánudag í Stykkishólmi. Ef til oddaleiks kemur fer hann fram á miðvikudag í Grindavík. Þorleifur Ólafsson var stigahæstur í liði Grindavíkur með 20 stig og Jamaal Williams skoraði 14 en hann fór af velli með 5 villur í upphafi fjórða leikhluta. Helgi Jónas Guðfinsson skoraði 14 stig en hann var með 57% nýtingu í þriggja stiga skotunum í leiknum þar sem 4 af alls 7 fóru ofaní.

Justin Shouse skoraði 20 stig fyrir Snæfell en Hlynur Bæringsson tók 13 fráköst og skoraði 10 stig. Hlynur lék ekki í nema 26 mínútur en Geof Kotila þjálfari Snæfells hvíldi byrjunarliðið að mestu í fjórða leikhlutanum þegar staðan virtist vera vonlaus. Leikmenn Snæfells töpuðu boltanum alls 23 sinnum í leiknum á meðan Grindavík tapaði aðeins 13 boltum. 

Tölfræði leiksins á kki.is

Grindavík - Snæfell 90:71  (4. leikhluta er lokið).

Liðin eigast við í fjórða sinn á mánudaginn í Stykkishólmi og hefst leikurinn kl. 20.  Ef til oddaleiks kemur þá verður hann í Grindavík á miðvikudaginn.

17:22 Geof Kotila þjálfari Snæfells hefur tekið allt byrjunarliðið útaf þegar 4 mínútur eru eftir af leiknum. Staðan er 84:60 og allt útlit fyrir sigur Grindavíkur. Snæfell hefur ekki tapað leik í úrslitakeppninni fram til þessa en liðið vann Njarðvík 2:0 í 8-liða úrslitum á meðan Grindavík vann Skallagrím tvívegis á heimavelli en tapaði aftur á móti í Borgarnesi. 

17:15 Jamaal Williams, bandaríski miðherjinn í liði Grindavíkur, fékk 5. villuna þegar 1 mínúta var liðinn af fjórða leikhluta. Það virðist ekki há Grindavíkurliðinu sem er nú með 20 stig forskot, 70:50. Þorleifur Ólafsson leikur vel í Grindavíkurliðinu en hann er með 17 stig og 5 stoðsendingar. Justin Shouse er stigahæstur í liði Snæfells með 16 stig og 6 stoðsendingar. 

Grindavík - Snæfell 63:48 (3. leikhluta er lokið).

Það virðist sem að Grindavík ætli ekki að gefa neitt eftir enda er staða liðsins slæm. Ef liðið tapar eru leikmenn liðsins komnir í sumarfrí. 

17:04 Það munar 10 stigum á liðunum þegar 3 mínútur eru eftir af þriðja leikhluta. Grindavík er yfir 54:44. Hlynur Bæringsson er með tvöfalda tvennu, 10 stig og 13 fráköst.

16:55 Grindavík hóf síðari hálfleikinn af miklum krafti. Þegar 3 mínútur eru liðnar af síðari hálfleik er staðan 49:34 fyrir Grindavík. Stykkishólmsliðinu gengur illa að koma í veg fyrir mistök í sóknarleiknum og fram til þessa hafa leikmenn liðsins misst boltann 16 sinnum. Þriggja stiga nýting Grindvíkinga er frábær en 7 af alls 14 slíkum skotum hafa farið ofaní. Aðeins 3 af alls 13 þriggja stiga skotum Snæfells hafa farið ofaní.

Grindavík - Snæfell 40:31 (2. leikhluta er lokið).

Þrjár síðustu körfurnar í fyrri hálfleik voru þriggja stiga körfur. Helgi Jónas Guðfinnsson kom Grindavík í 37:28, Slobodan Subasic svaraði fyrir Snæfell með þriggja stiga körfu en Þorleifur Ólafsson kom Grindavík í 40:31 með þriggja stiga skoti. Þorleifur er stighæstur í liði Grindavíkur með 13 stig og Adam Darboe hefur skorað 9 stig. Hlynur Bæringsson er með 10 fráköst og 8 stig í liði Snæfells. Jamaal Williams leikmaður Grindavíkur fékk fjórðu villuna rétt undir lok fyrri hálfleiks og eru það slæm tíðindi fyrir Grindvíkinga. 

16:29 Annar leikhluti er hálfnaður og Snæfell hefur minnkað forskot Grindavíkur í 5 stig. Staðan er 30:25. Hlynur Bæringsson hefur skorað 8 stig og tekið 5 fráköst fyrir Snæfell. 

Grindavík - Snæfell 22:10 (1. leikhluta er lokið). 

Adam Darboe skoraði 9 stig fyrir Grindavík í fyrsta leikhluta og Jamaal Williams er með 6 stig. Í liði Snæfells er Justin Shouse með 5 stig. 

16:12 Grindavík ætlar sér ekki að gefas svo auðveldlega upp. Staðan er 14:7 fyrir Grindavík þegar 2 mínútur eru eftir af fyrsta leikhluta. Aðeins Justin Shouse og Hlynur Bæringsson hafa komist á blað í liði Snæfells.  

Grindavík endaði í 3. sæti deildarkeppninnar og hafði betur gegn Skallagrími í 8 liða úrslitum, 2:1. Snæfell endaði í 5. sæti deildarinnar og lagði Njarðvík sem endaði í 4. sæti, 2:0, í 8 liða úrslitum.

Snæfell hefur tvívegis leikið til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn en það var 2005 og 2006. Í bæði skiptin tapaði Snæfell 3:1 gegn Keflavík. Á þessari leiktíð hefur Snæfell sigrað í báðum bikarkeppnum KKÍ og sigurinn í Lýsingarbikarkeppninni var sá fyrsti í sögu félagsins.

Grindavík hefur einu sinni fagnað Íslandsmeistaratitlinum, árið 1996, en liðið hefur sex sinnum leikið til úrslita frá því að úrslitakeppnin fór fyrst fram árið 1984. Grindavík lék síðast til úrslita um titilinn árið 2003 en þá tapaði liðið, 3:0, fyrir Keflavík.

Justin Shouse leikmaður Snæfells.
Justin Shouse leikmaður Snæfells. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert