Detroit jafnaði metin gegn Boston

Antonio McDyess og Chauncey Billups leikmenn Detroit Pistons.
Antonio McDyess og Chauncey Billups leikmenn Detroit Pistons. Reuters

Antonio McDyess skoraði 21 stig og gaf 16 stoðsendingar fyrir Detroit Pistons í 94:75-sigri liðsins í fjórða leiknum gegn Boston Celtics í úrslitum Austurdeildar NBA-deildarinnar. Staðan er því jöfn, 2:2, í rimmunni en næsti leikur fer fram í Boston. Richard Hamilton skoraði 10 af alls 20 stigum sínum í fjórða leikhluta fyrir Detroit.

„Við erum að fara í þriggja leikja seríu og þar verðum við að halda heimaleikjarétti okkar,“ sagði Ray Allen leikmaður Boston. Detroit náði 10 stiga forskoti strax á upphafsmínútum leiksins og litu aldrei um öxl eftir það. Kevin Garnett skoraði 16 stig og tók 10 fráköst fyrir Boston og Paul Pierce var með 16 stig en skotnýting Boston var skelfileg í leiknum, aðeins 21 skot af alls 66 utan af velli fór rétta leið eða 32%.

McDyess er eini leikmaðurinn í byrjunarliði Detroit sem hefur ekki unnið meistaratitil á ferlinum. „Ég er að  nálgast lokin á mínum ferli og ég reyndi að hafa jákvæð áhrif á samherja mína. Ég held að það hafi tekist,“ sagði McDyess en hann kom til liðsins sumarið 2004 eftir að Pistons hafði landað meistaratitlinum.

Stig Boston:  Kevin Garnett 16, Paul Pierce 16, Ray Allen 11, James Posey 11, Kendrick Perkins 10, P.J. Brown 4, Rajon Rondo 4, Glen Davis 3.

Stig Detroit: Antonio McDyess 21, Richard Hamilton 20, Jason Maxiell 14, Rasheed Wallace 14, Chauncey Billups 10, Tayshaun Prince 7, Jarvis Hayes 3, Rodney Stuckey 3, Theo Ratliff 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert