Yfirburðir Boston - 17. meistaratitillinn í höfn

Kevin Garnett, Ray Allen, og Paul Pierce fagna titlinum.
Kevin Garnett, Ray Allen, og Paul Pierce fagna titlinum. Reuters

22 ára löng bið stuðningsfólks Boston Celtics á nýjum meistaratitli nú loks á enda eftir sigur á Los Angeles Lakers í lokaúrslitum NBA deildarinnar. Celtics tók Lakers í nefið, 131:92, í sjötta leik liðanna í Boston á þriðjudag og vann þar með lokaeinvígið 4:2. Ég hef lúmskan grun um að margur Celtics-aðdáandinn á klakanum hafi brosað breitt um miðja nótt horfandi á langþráðan draum rætast.

Það er í raun lítið um leik liðanna sjálfan að segja. Á milli fimmta og sjötta leik þessara liða höfðu ýmsir svokallaðir NBA sérfræðingar gefið í skyn að meiðsl og þreyta leikmanna Boston myndi gefa Lakers gott tækifæri á að jafna leikseríuna. Þeir sem hinsvegar hafa fylgst grannt með leikjum þessara liða undanfarið og enn haft þá skoðun, hljóta að hafa verið að reykja eitthvað meira en tóbak! Lakers rétt hékk í leikseríunni með því að klóra í bakkann í lok fimmta leiksins. Frá byrjun þessarar leikseríu hefur Boston ávallt haft yfirhöndina og það var aldrei hinn minnsti möguleiki að Los Angeles myndi vinna leik í Boston. Sannarlega sanngjarn sigur Boston í leikseríunni.

Kobe góður í fyrsta leikhluta 

Fyrsti leikhlutinn var jafn (24:20), einkum vegna góðrar hittni Kobe Bryant, en strax í upphafi annars leikhluta tók Boston leikinn í sínar hendur – með einn byrjunarleikmann inni á vellinum lengi vel á þeim kafla. Bryant fann enga leið til að fá gott skot í sókninni og samherjar hans áttu í sömu vandamálum vegna frábærs varnarleiks heimamanna. Sem dæmi um það náði Lakers ekki einu einasta sóknarfrákasti í fyrri hálfleiknum – sömu tölu og ég sitjandi í sófanum mínum með gifsi á vinstri fæti! Á hinum enda vallarins léku leikmenn Boston við hvern sinn fingur og tættu vörn Lakers í sundur hvað eftir annað. Afraksturinn var 23 stigar forysta Boston í hálfleik, 58:35, og af þeim sökum var seinni hálfleikurinn aðeins formsatriði fyrir Celtics.

Leiksería liðanna einkenndist af því að Los Angeles var ávallt að reyna að finna svar við sterkum varnarleik Boston, en að auki var Celtics sterkara á öllum sviðum. Boston vann baráttuna í teignum, í þriggja stiga skotum, í baráttunni um lausa bolta, í að fórna líkamanum til að fá sóknarruðning, og svo mætti lengi telja. Það ætti því ekki að vera neitt óvænt í sigri Boston í þessum leik. Hann var fyrirsjáanlegur.

Leikgleði og Rondo

Það er engin ástæða til að fara mörgum orðum um tölfræðina í leiknum. Hún skiptir yfir höfuð litlu máli, en ef rýnt er í hana eru allar tölurnar Boston í vil. Þó verður að geta leikstjórnandans, Rajon Rondo, sem skoraði 21 stig, tók sjö fráköst, sendi átta stoðsendingar og stal knettinum sex sinnum. „Ég verð að geta Rondo í kvöld,” sagði Doc Rivers, þjálfari Boston, í leikslok. „Hann var frábær og setti tóninn frá byrjum með ákveðni sinni.” Ray Allen skoraði 26 stig, þar af sjö þriggja stiga körfur. Allen átti erfiða daga fyrir þennan leik, en ungur sonur hans var sjúkdómsgreindur með sykursýki í Los Angeles um síðustu helgi.

Það sem skiptir kannski mestu máli er Celtics í þessari leikseríu er leikgleði og barátta liðsins. Boston hafði ýmsar ástæður í leikseríunni til að kvarta. Fjórir byrjunarleikmenn, þeir Ray Allen, Kendric Perkins, Rajon Rondo og Paul Pierce, áttu allir við meiðsl að eiga, en hjá Lakers voru allir heilir. Þrátt fyrir þetta var aldrei kvartað, heldur skórnir reimaðir og út á völl var farið til að gera það sem til þurfti. Varamenn Celtics voru lykillinn hér. Það var sama hver var kallaður til leiks, allir leikmenn fylltu skarð sem fylla þurfti. P.J. Brown, Sam Cassell, James Posey, Eddie House og Leon Powe léku allir lykilhlutverk í einu eða fleiri leik.

Pierce og Ainge brosa breitt

Loks er að geta Paul Pierce, sem var allt í öllu hjá Celtics í þessari úrslitakeppni. Hann hefur leikið með liðinu í tíu ár og farið í gegnum ýmislegt á þeim tíma. Titillinn eru verðlaun hans eftir langa bið. Þessi titill er einnig mikil réttlæting fyrir eiganda, framkvæmdastjóra og þjálfara Boston, eftir þeir voru næstum hraktir úr borginni eftir hamfarir síðasta keppnistímabils. Danny Ainge, framkvæmdastjóri Celtics, tók af skarið síðasta sumar og náði í þá Kevin Garnett frá Minnesota Timberwolves og Ray Allen frá Seattle SuperSonics í leikmannaskiptum. Það umturnaði leikmannahópnum. Doc Rivers hefur ávallt verið góður þjálfari, eins og oft hefur verið getið í þessum dálkum. Með endurnýjuðum leikmannahóp náði hann að sýna styrk sinn.

Nýtt upphaf hjá Boston 

Boston mun eflaust verða sterkasta liðið í Austurdeildinni um sjáanlega framtíð, enda fátt um fína drætti í þeirri deild. Langþráðir aðdáendur liðsins geta því hugsað til fleiri lokaúrslitarimmur á næstu árum. Á meðan slást átta lið um sigurinn í Vesturdeildinni. Hvert lið öðru betra.

Ó, já, ég gleymdi víst að geta Los Angeles Lakers. Eins og orðatiltækið segir: Þeir komu. Þeir sáu. Þeir steinlágu! 

„Það var miklu meiri baráttuandi hjá Boston í þessari leikseríu. Við náðum aldrei taki á neinum leik. Vissulega var góður varnarleikur þeirra stór þáttur í því, en ég er vonsvikinn að mínir menn gátu aldrei fundið svar við orku þeirra,” sagði Phil Jackson, þjálfari Lakers að leik loknum. „Við eigum eftir að jafna okkur á þessu og mætum með [Andrew] Bynum á næsta keppnistímabili. Ef að ungu leikmennirnir hjá okkur skildu ekki hvað til þarf til að vinna meistaratitilinn, þá vita þeir það núna,” bætti hann við.

Framtíð Lakers er björt

Framtíð Lakers er björt, rétt eins og hjá Boston, en sýnilegt er að Lakers bráðvantar nokkra „jaxla” eins og það er oft kallað á íþróttamáli á klakanum. Þegar á reyndi í þessum lokaúrslitum voru nokkrir leikmenn Los Angeles ekki tilbúnir að fórna því sem til þurfti. Liðið lék of fíngerðan leik gegn liði sem var tilbúið í skotgrafar hernað.


Paul Pierce, Ray Allen fagna sigrinum ásamt Kevin Garnett.
Paul Pierce, Ray Allen fagna sigrinum ásamt Kevin Garnett. Reuters
Kevin Garnett og Bill Russell fyrrum stórstjarna Boston Celtics ræddu …
Kevin Garnett og Bill Russell fyrrum stórstjarna Boston Celtics ræddu málin í leikslok. Reuters
Kobe Bryant hefur þrívegis fagnað sigri í NBA-deildinni með Lakers. …
Kobe Bryant hefur þrívegis fagnað sigri í NBA-deildinni með Lakers. Í ár varð hann að sætta sig við tap gegn Boston Celtics. Reuters
Paul Pierce var valinn besti leikmaður lokaúrslitanna í NBA-deildinni en …
Paul Pierce var valinn besti leikmaður lokaúrslitanna í NBA-deildinni en hann hefur beðið eftir þessu augnabliki í áratug. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert