Meistararnir töpuðu á heimavelli

Yao Ming var öflugur með Houston í nótt og stöðvar …
Yao Ming var öflugur með Houston í nótt og stöðvar hér Paul Pierce, framherja Boston. Reuters

Meistarar Boston Celtics töpuðu í nótt á heimavelli fyrir Houston, 89:85, í NBA-deildinni í körfuknattleik. Þetta var sjötta tap meistaranna í síðustu átta leikjunum og það fyrsta á heimavelli síðan 14. nóvember. 

Boston hefur nú alls tapað átta leikjum af 37 í vetur og misst toppsætið í Austurdeildinni í hendur Cleveland Cavaliers.

Kínverjinn Yao Ming fór mikinn í liði Houston að þessu sinni, hann gerði 26 stig og tók átta fráköst.

Ron Artest kom næstur í liði Houston með 17 stig. Paul Pierce gerði 26 stig fyrir meistarana og Kevin Garnett var með 18 stig og tók auk þess átta fráköst. 

Spánverjinn Pau Gasol átti stórleik þegar LA Lakers lagði Golden State, 114:106. Hann gerði 33 stig og tók einnig 18 fráköst.  Samherji hans, Kobe Bryant, var með 21 stig.  Andrew Bynum kom næstur með 18 stig og 11 fráköst.

LeBron James átti náðugan dag þegar Cleveland vann stórsigur á Charlotte, 111:81. Hann gerði 21 stig en var snemma kallaður af leikvelli og látinn hvíla lúin bein á varamannabekknum. Þetta var 18. sigur Cleveland á heimavelli á leiktíðinni en liðið hefur engri viðureign tapað heima til þessa.  

Úrslit leikja næturinnar í NBA:

Orlando - Atlanta 106:102

Cleveland - Charlotte 111:81

Toronto - Washington 99:93

Houston - Boston 89:85

New Jersey - Memphis 100:89

Philadelphia - Milwaukee 110:105

Minnesota - Oklahoma 129:87

Denver - Miami 108:97

Indiana - Phoenix 113:110

Utah - Hornets 116:90

Portland - Detroit 84:83

LA Lakers - Golden State 114:106

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert