Aftur lagði KR Íslandsmeistara Keflavíkur

Úr leik KR og Keflavíkur í kvöld.
Úr leik KR og Keflavíkur í kvöld. mbl.is/Ómar

Annar leikur KR og Keflavíkur í úrslitakeppnni Iceland Express deildar kvenna í körfuknattleik fór fram í DHL höllinni í Frostaskjóli í kvöld. KR sigraði 69:54 og er með yfirhöndina í rimmu liðanna 2:0 eftir að hafa sigrað 78:77 í fyrsta leiknum í Keflavík. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki kemst í úrslitaleikina gegn Haukum eða Hamri. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Stigahæstar:

KR: Hildur Sigurðardóttir 19 stig, Margrét Kara Sturludóttir 13.

Keflavík: Bryndís Guðmundsdóttir 21 stig, TaKesha Watson 15 stig.

40. LEIK LOKIÐ: KR sigraði 69:54 og hefur yfir 2:0 samanlagt.

38. KR-konur eru að landa sigrinum í þessum leik með sannfærandi hætti. Staðan er 69:52 fyrir KR.

36. KR er á góðri leið með að komast í 2:0 í einvíginu á móti Keflavík. Staðan er 63:49 og tíminn að verða naumur fyrir Keflavík.

34. Staðan er 57:47 fyrir KR en Hildur skoraði mikilvæga þriggja stiga körfu. Birna Valgarðsdóttir lykilmaður hjá Keflavík var að fá sína fimmtu villu og tekur ekki frekari þátt í leiknum. 

33. Keflvíkingar eru sprækari í upphafi síðasta leikhluta og hafa minnkað muninn örlítið. Staðan er 53:47.

30. Staðan er 51:43 fyrir KR þegar einn leikhluti er eftir. Guðrún skoraði aðra þriggja stiga körfu fyrir KR. 

29. Það tók bikarmeistara KR átta og hálfa mínútu að skora stig í þriðja leikhluta. Þar var á ferðinni Guðrún Ósk Ámundadóttir með þriggja stiga skoti. Staðan er 48:41 en Keflavík hafði skorað fyrstu fimmtán stigin í leikhlutanum. 

27. Íslandsmeistararnir frá Keflavík eru heldur betur að hleypa spennu í þessa viðureign. Þær hafa minnkað muninn niður í átta stig 45:37 og KR er ekki enn komið á blað í síðari hálfleik. 

23. Keflvíkingar virðast hafa fundið taktinn og staðan er 45:33 fyrir KR. Keflavík hefur því skorað fyrstu sjö stigin í síðari hálfleik.

20. Einar Þór Skarphéðinsson og Eggert Þór Aðalsteinsson hafa flautað til leikhlés og KR hefur gott forskot 45:26.  Yfirburðir liðsins hafa verið miklir enda ákefðin og grimmdin mun meiri hjá KR-konum heldur en Keflavíkurkonum. Hildur Sigurðardóttir er stigahæst hjá KR með 14 stig en Margrét Kara Sturludóttir er með 11 stig. Bryndís Guðmundsdóttir hefur leikið best hjá Keflavík en hún og TaKesha Watson hafa skorað 10 stig hvor.

17. Staðan er 41:19 fvrir KR og lítið lífsmark með leikmönnum Keflvíkinga enn sem komið er.

14. Keflavík gengur illa að minnka muninn og er staðan orðin 34:14. KR hefur þó átt erfiðara með að skapa sér færi í þessum leikhluta en Hildur Sigurðardóttir og Margrét Kara Sturludóttir skora mikilvægar körfur með jöfnu millibili. 

12. Staðan er 29:12 fyrir KR. Keflavíkurliðið reynir þessa stundina að hleypa leiknum upp með því að pressa KR-liðið úti um allan völl.

10. Staðan er 26:8 fyrir KR eftir fyrsta leikhluta. Bikarmeistarar KR hafa farið hamförum í fyrsta leikhluta og eru búnar að byggja upp ótrúlegt forskot gegn Íslandsmeisturunum.

7. Staðan er 12:4 fyrir KR. Lið Keflavíkur hefur gert urmul af mistökum í sóknarleik sínum og svo virðist sem spennustigið sé allt of hátt hjá leikmönnum liðsins. 

4. KR hefur náð mikilli forystu strax á upphafsmínútum leiksins og er staðan orðin 10:2. Sóknarleikur Keflavíkur er stirður en KR-konur hafa nýtt sín skotfæri vel.

1. Bryndís Guðmundsdóttir skoraði fyrstu körfu leiksins fyrir Keflavík en Helga Einarsdóttir svaraði fyrir KR. Bæði liðin komin strax á blað og staðan er 2:2.

0. Þessi lið áttust við í úrslitum bikarkeppninnar fyrir skömmu og þá höfðu KR-konur betur. Síðan þá hafa Keflvíkingar fengið TaKeshu Watson í sínar raðir auk þess sem Erla Reynisdóttir hefur tekið fram skóna.

0. Keflavíkurkonur eru handhafar Íslandsmeistaratilsins frá því síðasta vor. Þá sigruðu þær einmitt KR í úrslitarimmunni. 

Úr leik KR og Keflavíkur í kvöld.
Úr leik KR og Keflavíkur í kvöld. mbl.is/Ómar
Úr leik KR og Keflavíkur á heimavelli KR-inga.
Úr leik KR og Keflavíkur á heimavelli KR-inga. mbl.is/Ómar
Hart barist í viðureign KR og Keflavíkur.
Hart barist í viðureign KR og Keflavíkur. mbl.is/Ómar
KR-ingar stefna að öðrum sigri sínum í rimmunni við Keflavík …
KR-ingar stefna að öðrum sigri sínum í rimmunni við Keflavík í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert