Sigurður: „Hneyksli að þessi leikur var ekki í beinni“

Jesse Pellot Rosa skoraði 51 stig fyrir Keflavík gegn KR.
Jesse Pellot Rosa skoraði 51 stig fyrir Keflavík gegn KR. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hefði viljað fá meira út úr þessum leik. Eftir þriðju  framlenginguna var þetta bara spurning um heppni. Menn voru þreyttir, stífir, og gerðu mikið af mistökum. Ég trúi ekki öðru en að fólk hafi haft gaman að þessu og að þessi leikur hafi ekki verið í beinni útsendingu í sjónvarpi er bara hneyksli,“ sagði Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur eftir tapleikinn gegn KR.

Sigurður gat ekki annað en hrósað Jóni Arnóri Stefánssyni fyrir þriggja stiga skotið sem varð til þess að KR jafnaði metin undir lok 2. framlengingar.

„Jón Arnór hoppaði bara eitthvað út í loftið með þrjá varnarmenn ofaní sér. Við tókum ákvörðun að brjóta ekki á neinum, og reyna að þröngva þeim í erfitt skot. Það tókst en hann setti það ofaní og ég get lofað því að hann mun ekki endurtaka þetta í bráð. Ekki einu sinni á æfingu,“ sagði Sigurður en hann á eitt ár eftir af samningi sínum hjá Keflvík.

„Það er í eðli mínu að vilja landa sigrum og titlum. Það verður því erfitt að ganga frá þessu núna,“ sagði Sigurður.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert