Sigurður Ingimundarson: Boston liturinn skemmir ekki fyrir

Sigurður Ingimundarson, Njarðvík.
Sigurður Ingimundarson, Njarðvík. mbl.is/HilmarSig

Sigurður Ingimundarson þjálfari Njarðvíkinga segist vera farinn að venjast græna litnum og var ánægður með varnarleik sinna manna í kvöld. Njarðvík fór til Grindavíkrur og sigraði 74:67.

„Mér fannst við spila góða vörn í kvöld og þá sérstaklega þar sem við byrjuðum ekkert sérstaklega vel. Þetta er frábært lið sem við vorum að spila við og þetta er óvenjulítið skor hjá þeim á heimavelli. Ég vil meina að við höfum spilað mjög góða vörn. Mínir menn voru full ákafir í því að gera vel í fyrri hálfleik og þurftu bara að róa sig aðeins í seinni hálfleik. Þetta eru menn sem vilja ná langt og stundum þarf maður bara aðeins að dempa þá niður. Í þriðja leikhluta gekk mjög vel að fylgja þeirri áætlun sem við settum upp fyrir leikinn,“ sagði Sigurður í samtali við mbl.is í kvöld. Spurður um hvort hann sé farinn að venjast græna litnum sagði hann svo vera:

„Já Já. Fyrir mér er þetta bara körfubolti og skemmtilegt verkefni. Þetta er skemmtilegt lið og það er bara gaman af þessu. Það skemmir ekki fyrir að þetta er Boston liturinn. Ég á Boston Celtics treyju sem ég get verið í á æfingum,“ sagði Sigurður léttur en hann lék með og þjálfaði Keflavík árum saman og er eldheitur stuðningsmaður Celtics í NBA körfuboltanum.

Magnús Gunnarsson, fyrrum lærisveinn Sigurðar hjá Keflavík, var mjög drjúgur fyrir Njarðvíkinga í kvöld: „Þessi varnarleikur er vonandi það sem koma skal hjá okkur í vetur. Gamla klisjan segir að maður vinni titla á góðri vörn. Við erum á ágætu róli. Eftir þjálfaraskiptin þá höfum við breytt aðeins varnarleiknum en hann hefur alla vega virkað í fyrstu þremur leikjunum. Við skulum vona að það verði þannig í allan vetur og það verði gaman hjá okkur í lok tímabilsins,“ sagði Magnús og vill ekki meina að það sé mikill áherslumunur hjá bræðrunum Val og Sigurði Ingimundarsyni þegar kemur að þjálfun liðsins. 

Fjallað er um leik Grindavíkur og Njarðvíkur í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert