Bryant þokaði sér upp fyrir Jabbar

Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Reuters

Þrír leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Peja Stojakovic fór á kostum í lið New Orleans í 110:103 sigri liðsins gegn Phoenix Suns. Stojakovic skoraði 7 þriggja stiga körfur úr 11 skottilraunum og alls skoraði hann 25 stig. Amare Stoudemire skoraði 23 stig fyrir Phoenix.

Deron Williams skoraði  21 stig fyrir Utah Jazz í 90:83 sigri liðsins gegn San Antonio Spurs á útivelli. Þetta var í fyrsta sinn frá árinu 1999 sem Utah vinnur Spurs á útivelli. Tim Duncan skoraði 21 stig fyrir San Antonio. 

Spánverjinn Pau Gasol skoraði 24 stig í 108:93 sigri meistaraliðs LA Lakers gegn Chicago Bulls, Kobe Bryant skoraði 21 stig. Bryant er þar með næst stigahæsti leikmaður Lakers frá upphafi með 24.182 stig, en hann þokaði sér upp fyrir Kareem Abdul-Jabbar á listanum. Bryant mun án efa slá félagsmetið sem er 25.192 stig. Bryant er í 16. sæti yfir stigahæstu leikmenn deildarinnar frá upphafi en á þeim lista er Kareem Abdul-Jabbar efstur með 38.387 stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert