Portland heldur ofurtakinu á Lakers

Mickael Pietrus reynir að skora fyrir Orlando gegn Washington en …
Mickael Pietrus reynir að skora fyrir Orlando gegn Washington en Mike Miller reynir að stöðva hann. Reuters

NBA-meistararnir í Los Angeles Lakers máttu þola sinn níunda ósigur í röð í Portland í nótt. Leikmenn Portland Trail Blazers hafa ofurtak á Lakers á sínum heimavelli, hafa sigrað þá þar í 15 af síðustu 17 leikjunum og brugðu ekki útaf vananum í nótt. Lokatölur urðu 107:98.

Það var uppselt í Rósagarðinum, heimavígi Portland, og stemmn ingin gríðarleg að vanda. „Stuðningsmenn okkar eiga stóran þátt í þessu. , þeir gefa okkur mikinn styrk. Við hefjum leikina gegn þeim af miklu sjálfstrausti, leggjum gífurlega hart að okkur og eigum yfirleitt okkar bestu leiki þegar þeir koma hingað. Við höfum þó ekki mörg orð um það, segjum bara: Meistararnir - vinnum þá," sagði Brandon Roy eftir leikinn en hann lék frábærlega og skoraði 32 stig í leiknum.

Kobe Bryant var stigahæstur hjá Lakers með 32 stig og Lamar Odom tók 13 fráköst.

Boston mátti líka þola tap, Atlanta vann leik liðanna á sínum heimavelli, 93:85. Jamal Crawford gerði þar útslagið, skoraði 14 af 18 stigum sínum í fjórða leikhluta og var stigahæstur heimamanna. Paul Pierce skoraði 21 stig fyrir Boston.

Í þriðja stórleik næturinnar vann Denver sigur á Cleveland, 99:97. Stigahæsti leikmaður deildarinnar í vetur, Carmelo Anthony, lék ekki með Denver vegna meiðsla. Chauncey Billups skoraði 32 stig fyrir Denver sem gerði útum leikinn með góðum endaspretti. LeBron James skoraði 35 stig fyrir Cleveland.

Monta Ellis var stigahæsti leikmaður næturinnar en hann gerði 39 stig fyrir Golden State sem vann Sacramento í Vesturstrandarslag, 108:101. Golden State skoraði þar 50 stig gegn 25 á síðustu 18 mínútum leiksins.

Úrslitin í nótt:

Philadelphia - Toronto 106:108
Washington - Orlando 104:97
Atlanta - Boston 93:85
Memphis - Utah 91:89
Minnesota - Indiana 116:109
New Orleans - New Jersey 103:99
Milwaukee - Chicago 96:93
San Antonio - Dallas 103:112
Phoenix - Miami 105:109
Portland - LA Lakers 107:98
Denver - Cleveland 99:97
Golden State - Sacramento 108:101

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert