Snæfell skoraði 110 stig gegn Grindavík

Hlynur Bæringsson er fyrirliði Snæfells.
Hlynur Bæringsson er fyrirliði Snæfells. mbl.is/Golli

Annar leikur Snæfells og Grindavíkur í úrslitakeppni Iceland Express deildarinnar í körfuknattleik karla hófst klukkan 19:15 í Stykkishólmi. Snæfell sigraði 110:93 og sló Grindavík út úr keppninni 2:0. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Atkvæðamestir: 

Snæfell: Sean Burton 24 stig, 11 stoðsendingar, Hlynur Bæringsson 23 stig, 14 fráköst. 

Grindavík:  Páll Axel Vilbergsson 28, Darrel Flake 24 stig, 7 fráköst.

40. mín: LEIK LOKIÐ. Snæfell sigraði 110:93 og er komið í undanúrslit mótsins en Grindvíkingar eru farnir í sumarfrí.

35. mín: Staðan er 100:85 fyrir Snæfell. Hólmarar eru búnir að brjóta 100 stiga múrinn. Sean Burton og Jón Ólafur Jónsson settu niður tvö þriggja stiga skot á skömmum tíma. Grindvíkingar náðu muninum niður í 6 stig í upphafi fjórða leikhluta.

33. mín: Staðan er 92:85 fyrir Snæfell. Grindvíkingar hafa verið mun sterkari í upphafi fjórða leikhluta og hafa verið fljótir að saxa á forskotið. Varnarleikur Grindavíkur er mun betri síðustu mínútur en fram að því í leiknum.

30. mín: Staðan er 89:75 fyrir Snæfell þegar einn leikhluti er eftir. Hittni Hólmara er frábær og Sean Burton hefur sett niður nokkur þriggja stiga þar sem hann hefur verið langt fyrir utan línuna. Burton er með 21 stig. Annars hefur stigaskorið dreifst vel hjá Snæfelli. Paxel er lang stigahæstur Grindvíkinga með 26 stig. 

26. mín: Staðan er 77:69 fyrir Snæfell. Leikurinn er hraður og hlutirnir fljótir að gerast. Staðan var 69:69 en Hólmarar hafa náð að rykkja frá gestunum. Friðrik þjálfari Grindavíkur tekur leikhlé. 

23. mín: Staðan er 64:65 fyrir Grindavík. Leikurinn er algerlega í járnum og verður vafalaust æsispennandi á lokamínútunum. 

20. mín: Staðan er 55:57 fyrir Grindavík að loknum fyrri hálfleik. Paxel er kominn með 22 stig og lauk fyrri hálfleik með glæsilegri körfu. Hólmarar hafa verið heitir fyrir utan þriggja stiga línuna og hafa sett niður 10 þriggja stiga skot í fyrri hálfleik. Það stefnir í enn einn stórleikinn hjá Hlyni Bæringssyni en hann er kominn með 12 stig og 6 fráköst.

17. mín: Staðan er 45:43 fyrir Snæfell. Hittni leikmanna er gríðarlega góð, sérstaklega ef mið er tekið af því hve mikið er í húfi. Hittnin er alla jafna verri þegar spennustigið er hátt en það er aldeilis ekki raunin í Hólminum í kvöld. 

13. mín: Staðan er 36:33 fyrir Snæfell. Það stefnir í rosalegan leik hjá Paxel því hann hefur skorað 16 stig nú þegar fyrir Grindavík. Þegar hann hitnar þá hittir hann úr svo gott sem öllum skotum eins og menn vita.

10. mín: Staðan er 23:24 fyrir Grindavík að loknum fyrsta leikhluta.  Grindvíkingar skoruðu síðustu sex stigin í leikhlutanum. Páll Axel Vilbergsson er heitur og hefur skorað 9 stig fyrir Grindavík en stigaskorið hefur dreifst betur hjá Snæfell. Leikurinn var mjög fjörugur í fyrsta leikhluta og lofar góðu. 

5. mín: Staðan er 11:16. Grindvíkingar byrja leikinn með látum og komust í 13:5. 

0. mín: Sigri Snæfell kemst liðið í undanúrslit en sigri Grindavík þurfa liðin að leika oddaleik í Grindavík. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert