KR jafnaði metin í Stykkishólmi

Sean Burton úr Snæfelli og Tommy Johnson úr KR.
Sean Burton úr Snæfelli og Tommy Johnson úr KR. mbl.is/Kristinn

Með gríðargóðri vörn í fjórða leikhluta tókst KR-ingum að snúa við blaðinu í Stykkishólmi í kvöld og sigra 76:72, sem tryggði þeim oddaleik í undanúrslitum Íslandsmótsins og sá leikur fer fram í Vesturbænum.

Framan af leit út fyrir að Reykvíkingar næðu undirtökunum en síðar að Snæfell ynni með góðri vörn í þriðja leikhluta. Þegar KR-ingar sjálfir tóku sína vörn föstum tökum í fjórða leikhluta dugði það til að loka fyrir skot heimamanna og því náðu þeir að sigra.

40.00  Leik lokið, 72:76 fyrir KR.

35.20  Gríðarleg spenna og ennþá meira fjör í leiknum.  Morgan Lewis og Pavel draga vagninn fyrir KR en Snæfellingar veita en mótspyrnu.  Staðan er jöfn, 62:62.

30.00  Harka að færast í leikinn en Snæfell heldur þó naumu forskoti og getur helst þakkað það frábærri vörn á köflum.  Með átta stiga forystu gerðust Hólmarar aðeins of værukærir og var refsað fyrir svo að einungis munaði fjórum stigum eftir þriðja leikhluta, 55:51.   Sean Burton fékk högg frá Fannari í KR og var að yfirgefa völlinn til að stöðva blóðnasir en sneri sterkur til baka.  Villur farnar að færa yfir menn en aðeins KR-ingurinn Finnur Magnússon er kominn með fjórar. 

20.00  Hálfleikur og staðan 33:30.  Eftir að Snæfellingar fundu sig ekki í fyrsta leikhluta náðu þeir einbeitingu sem rétt dugði til að komast yfir því KR-ingar stóðu fyrir sínu.  Martins Berkis kom sterkur inn hjá Snæfell en Morgan Lewis tók oftast af skarið fyrir KR.  Það sýnir sig hvað leikurinn er jafn að ef annað liðið gerði helmingi færri mistök dygði það til ágætrar forystu.  En svona er þetta bara.

17.00  Þrjár mínútur eftir að öðrum leikhluta og Snæfellingar hafa rétt úr kútnum með 30:25 forystu.  KR-inga eru þó alls líklegir enda fimm stig ekki mikið í körfubolta.

10.00 Fyrsta leikhluta lokið og staðan 12:16 fyrir KR, sem byrjaði mun betur og náði mest níu stiga forystu þegar hreinlega ekkert gekk upp hjá heimamönnum en þeim tókst þó að saxa á forskotið.

1.00  ... og leikurinn er hafinn, gríðarleg stemming á pöllunum.

19.12  Búið er að kynna liðin og Sigmundur Már Herbertsson, sem dæmir ásamt Kristni Óskarssyni, tilkynnti að það væru þrjár mínútur í leik.

19.00  Krókur á móti bragði.  Þegar KR-ingar stormuðu á áhorfendapallana voru Hólmarar viðbúnir og sungu af miklum móð „Stöndum upp fyrir Snæfelli, stöndum upp fyrir Snæfelli“ en Vesturbæingar syngja iðulega „Stöndum upp fyrir stórveldið“.  Á meðan þessi kappsöngur fór fram var lítið hægt að tala saman.

18.54  Hér situr á pöllunum Auður frá Stykkishólmi og virðist taka lífinu með ró því hún prjónar.  Við nánari skoðun er það bara til að halda stressinu niðri sem gengur ekki betur en svo að sessunautar hennar eru ekki vissir um hvernig peysan, sem Auður dundar sér við, mun líta út.

18.45  Enn er hálftími í leik en fjörið er byrjað í íþróttahúsinu í Stykkishólmi, Fjárhúsinu, því hér stjórnar Andri Friðriksson fjöldasöng fyrir Hólmara og þeir taka hraustlega undir.   KR-ingar eru þó að síga í hús og er nokkuð víst að þeir láta ekki sitt eftir liggja.  Leikmenn hita þó upp eins og ekkert sé en þeir hljóta allir að finna að fólk troðfyllir pallana þeim til stuðnings.    

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert