Íslandsmeistaratitillinn í Stykkishólm í fyrsta sinn

Úr leik Keflavíkur og Snæfells í kvöld.
Úr leik Keflavíkur og Snæfells í kvöld. mbl.is/hag

Snæfell úr Stykkishólmi varð í kvöld Íslandsmeistari í körfuknattleik karla í fyrsta sinn þegar liðið vann stórsigur á Keflavík, 105:69, í fimmta og síðasta úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli Keflavíkur.

Snæfellingar réðu lögum og lofum frá upphafi til enda leiksins í kvöld og voru m.a. með 27 stiga forskot í hálfleik, 57:30. Fyrr á keppnistímabilinu vann Snæfellsliðið bikarkeppnina og er því handhafi beggja stóru titlana í körfuknattleik að lokinni þessari leiktíð.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Tölfræðin á KKÍ.

Atkvæðamestir: 

Keflavík: Urele Igbavboa 23 stig og 6 fráköst, Sverrir Sverrisson 10. 

Snæfell: Hlynur Bæringsson 21 stig og 15 fráköst,  Martins Berkis 18.

40. mín: LEIK LOKIÐ. Snæfell sigraði 105:69 og var yfir allan leikinn og tryggði sér tvöfaldan sigur. 

38. mín: Staðan er 66:100 fyrir Snæfell. Hlynur Bæringsson var að rjúfa 100 stiga múrinn fyrir Snæfell. Hlynur hefur skorað 21 stig og tekið 15 fráköst. 

35. mín: Staðan er 60:91 fyrir Snæfell. Meira en þrjátíu stiga munur á liðunum og helsta körfuboltastórveldi landsins er niðurlægt í úrslitaleik og það á sínum eigin heimavelli. 

32. mín: Staðan er 56:82 fyrir Snæfell. Þótt ótrúlega kunni að hljóma þá tekst Hólmurum algerlega að halda Keflvíkingum í skefjum og munurinn er enn að aukast.  Besti leikmaður Keflvíkinga er líklega þulurinn í húsinu sem heldur áfram að halda stuðningsmönnunum á tánum.

30. mín: Staðan er 54:77 fyrir Snæfell þegar aðeins síðasti leikhlutinn er eftir. Hreint ótrúleg staða og Hólmarar eru að gera alvöru atlögu að sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli en liðið er þegar orðið bikarmeistari árið 2010.

27. mín: Staðan er 49:68 fyrir Snæfell. Hólmarar halda Keflvíkingum í hæfilegri fjarlægð og Keflvíkingar hafa ekki ennþá gert almennilegt áhlaup. Holningin á liðinu er einhvern veginn þannig að þeir eru ekki líklegir til þess. Það virðist vanta einhvern neista í leikmenn Keflavíkur. 

24. mín: Staðan er 43:64 fyrir Snæfell. Hörður Axel Vilhjálmsson var að skora fyrstu þriggja stiga körfu Keflvíkinga í leiknum. Öðruvísi mér áður brá.

23. mín: Staðan er 40:62 fyrir Snæfell. Þau tíðindi voru að gerast að Nick Bradford var að skora sín fyrstu stig í leiknum. 

21. mín: Síðari hálfleikur er byrjaður.

20. mín: Staðan er 30:56 fyrir Snæfell að fyrri hálfleik loknum. Ótrúlegir yfirburðir Hólmara og þeir eru komnir með aðra höndina á Íslandsbikarinn. Menn skyldu þó ekki afskrifa Keflvíkinga á körfuboltavellinum en það yrði vissulega saga til næsta bæjar ef þeim tækist að vinna upp 26 stiga forskot í síðari hálfleik í oddaleik. Ekkert bendir til þess miðað við leik þeirra í fyrri hálfleik þar sem þeir hittu til að mynda úr engu sjö þriggja stiga skota sinna. Snæfell hitti hins vegar úr níu af sautján. Yfirgengilegar tölur. Urele Igbavboa er stigahæstur Keflvíkinga með 8 stig en Emil Þór Jóhannsson hjá Snæfelli með 14 stig og Martins Berkis er með 11. 

18. mín: Staðan er 30:51 fyrir Snæfell. Það er ekki ofmælt að segja að útlitið sé gott hjá Snæfelli. Tveir af helstu sóknarmönnum Keflvíkinga, Bradford og Hörður Axel Vilhjálmsson hafa skorað samanlagt 2 stig en það eru nánast allir komnir inn í leikinn hjá Hólmurum. Emil hefur spilað sérstaklega vel og hefur skorað 12 stig.

15. mín: Staðan er 28:44 fyrir Snæfell. Þessi leikur er farinn að minna ansi mikið á þriðja leikinn hér í Keflavík þar sem Snæfell náði sér í gott forskot strax í fyrri hálfleik. Þá tókst þeim að hanga á forskotinu og tryggja sér sigurinn en hvað gerist í kvöld?

12. mín: Staðan er 24:40 fyrir Snæfell og Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells tekur leikhlé. Eins og í síðasta leik þá hefur leikur Keflvíkinga batnað við það að fá Sverri Þór Sverrisson inn af varamannabekknum. Keflvíkingar byrja ágætlega í öðrum leikhluta og það virðist vera meiri kraftur í varnarleiknum.

10. mín: Staðan er 19:37 fyrir Snæfell að loknum fyrsta leikhluta. Ótrúleg skotsýning hjá Snæfelli eins og svo oft áður í úrslitakeppninni.  Þeir hafa sett niður sex þriggja stiga skot í tíu tilraunum. Geri aðrir betur, sérstaklega þegar allt er undir eins og í þessum leik. Hvernig bregðast Keflvíkingar við þessu?

9. mín: Staðan er 16:34 fyrir Snæfell þegar um ein og hálf mínúta er eftir af fyrsta leikhluta.  Nick Bradford er ekki kominn á blað hjá Keflavík og er tekinn út af. 

6. mín: Staðan er 9:30 fyrir Snæfell. Hólmarar hitta öllu og eru búnir að setja niður fimm þriggja stiga körfur nú þegar. Keflvíkingar spila vörnina mjög framarlega og gestunum tekst auðveldlega að opna hana.

4. mín: Staðan er 5:20 fyrir Snæfell. Það er enginn miskunn hjá Magnúsi og  Jeb Ivey var að setja niður þriggja stiga körfu og hafa Hólmarar gert þrjár slíkar. Gunnar Einars hefur skorað öll stig heimamanna.

3. mín: Staðan er 2:12 fyrir Snæfell sem byrjar leikinn af þvílíkum krafti. Martins Berkis er búinn að skora 5 stig í röð og Keflvíkingar vita varla hvaðan á sig stendur veðrið.

1. mín: Staðan er 0:3 fyrir Snæfell. Emil Þór Jóhannsson setti niður þriggja stiga skot í fyrstu sókn gestanna.

Þessi lið mættust einnig í úrslitum árið 2008 og þá sigraði Keflavík 3:0. Níu leikmenn liðanna tóku þátt í þeirri rimmu. Gunnar Einarsson, Jón Nordal Hafsteinsson, Þröstur Leó Jóhannsson og Sigurður Þorsteinsson hjá Keflavík. Hlynur Bæringsson, Jón Ólafur Jónsson, Arnar Davíðsson, Sigurður Þorvaldsson og Gunnlaugur Smárason hjá Snæfelli. 

Stemningin er með besta móti í íþróttahúsinu í Keflavík sem á tyllidögum er kallað „sláturhúsið.“ Komið hefur verið fyrir bráðabirgðastæðum fyrir aftan báðar körfurnar til þess að koma fleiri áhorfendum fyrir. Gera má ráð fyrir því að um 1300 manns séu í húsinu.

Ungur körfuboltastelpur úr Keflavík eru nú kallaðar fram á gólfið og hylltar fyrir Íslandsmeistaratitla í yngri flokkum. 

Sigmundur Már Herbertsson og Rögnvaldur Hreiðarsson annast dómgæslu eins og í síðasta leik liðanna.  Mikið mun mæða á þeim félögum og vonandi tekst þeim vel upp.

Bæði liðin tefla fram öllum sínum leikmönnum í þessari lokaorrustu en þó eru nokkrir laskaðir í báðum herdeildum. Jón Nordal Hafsteinsson hjá Keflavík, Sigurður Þorvaldsson og Emil Þór Jóhannsson Snæfelli fengu allir höfuðáverka í síðasta leik en láta slíkt varla aftra sér á úrslitastundu. 

Sigurður Þorvaldsson leikmaður Snæfells og Hörður Axel Vilhjálmsson úr liði …
Sigurður Þorvaldsson leikmaður Snæfells og Hörður Axel Vilhjálmsson úr liði Keflavíkur. mbl.is/hag
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert