Ágúst ósáttur við framkvæmdina

Ágúst Björgvinsson
Ágúst Björgvinsson mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég hef oft sagt að við erum ekkert ósigrandi lið og það sannaðist hér í dag,“ sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari kvennaliðs Hamars eftir að lið hans tapaði 60:65 fyrir Kr í undanúrslitum Poweradebikars kvenna í körfuknattleik í dag.

„Við töpuðum í undanúrslitum í Lengjubikarnum í haust og svo aftur hér í undanúrslitum þannig að við erum ekkert ósigrandi,“ sagði Ágúst, en hann er með lið sitt á toppi Iceland Express deildar kvenna þar sem liðið hefur ekki tapað leik.

ágúst var ekki sáttur við framkvæmd leiksins í dag. „Ég er ósáttur með hvernig var staðið að þessum leik. KR fékk gefins sex stig í lok fyrri hálfleiks vegna mistaka á ritaraborðinu og við töpum með fim stigum. Það er sorglegt að loksins þegar kvennakarfan er sýnd beint í sjónvarpi þá skuli umgjörðin vera svona. Ég var ánægður að leikurinn yrði hér því KR-ingar hafa flott hús og halda venjulega mjög vel utan um leiki hér. En þetta var vanvirðing við leikinn,“ sagði Ágúst.

„Annars var vandamálið að við náðum engum fráköstum og því fékk KR alltaf tvo sénsa í hverri sókn og það er erfitt að spila þannig. Það á ekki að vera erfitt að spila á móti liði þegar það eru bara tveir leikmenn sem skora, en okkur gekk það erfiðlega,“ sagði Ágúst og vísaði til þess að Margrét Kara Sturludóttir og Chazny Paige Morris gerðu 45 af 65 stigum KR.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert