Sá mömmu dansa og skaut Oklahoma í úrslit

Kevin Durant og Russell Westbrook, leikmenn Oklahoma, fagna í leiknum …
Kevin Durant og Russell Westbrook, leikmenn Oklahoma, fagna í leiknum í kvöld. Reuters

Oklahoma City Thunder náði loks að stöðva hetjulega framgöngu Memphis Grizzlies í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í kvöld með því að vinna oddaleik liðanna, 105:90, í undanúrslitum Vesturdeildar. Oklahoma vann einvígið 4:3 og mætir Dallas í úrslitum vestanmegin en áður varð ljóst að Miami og Chicago leika til úrslita í Austurdeildinni.

Kevin Durant var í miklum ham í kvöld. Hann náði sér á strik á ný eftir slaka frammistöðu í sjötta leik liðanna og skoraði 39 stig fyrir Oklahoma. Eftir leikinn sagði Durant að það hefðu verið danstilþrif móður hans á áhorfendapöllunum sem kveiktu í honum.

„Ég vissi að hún kunni þessi spor, þetta gerði hún alltaf þegar ég var lítill. Hún skemmti sér vel og ég var ánægður að sjá það," sagði Durant við fréttamenn, en hann tók eftir dansi móður sinnar í einu leikhléanna í kvöld.

Russell Westbrook fór einnig á kostum með Oklahoma í leiknum í kvöld. Hann skoraði 14 stig, átti 14 stoðsendingar og tók 10 fráköst. 

Zach Randolph, sem öðrum fremur er maðurinn á bakvið óvænta frammistöðu Memphis, skoraði aðeins 17 stig og tók 10 fráköst. Hann hrósaði Durant mjög í leikslok.

„Durant er einstakur leikmaður, einn sá besti í NBA. Strákurinn er stöðugt að lyfta og leggur gífurlega hart að sér. Hann er einn af mínum uppáhalds leikmönnum og hann á alla mína virðingu. Frammistaða hans leik eftir leik segir meira en mörg orð," sagði Randolph.

Mike Conley var stigahæstur hjá Memphis með 18 stig. Fyrir þetta tímabil hafði Memphis aldrei unnið leik í úrslitakeppni en litlu munaði að liðið yrði það fyrsta í 8. sæti til að fara alla leið í úrslit.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert