Óvíst hvenær undanúrslit kvenna fara fram

Jaleesa Butler leikmaður Keflavíkur.
Jaleesa Butler leikmaður Keflavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Fresta þarf ákvörðun um hvenær spila eigi leiki í undanúrslitum kvenna í Powerade-bikarnum, bikarkeppni Körfuknattleikssambands Íslands. Það kemur ekki til af góðu en KKÍ barst kæra eftir leik Njarðvíkur og Keflavíkur í 8 liða úrslitunum, þar sem sett var út á framkvæmd leiksins af hálfu dómaranna á síðustu mínútunni.

Keflavík kærir en ákæran snýst um vítaskot sem Njarðvík átti að fá við fimmtu liðsvillu Keflavíkur en fékk ekki. Dómararnir ráðfærðu sig við starfsmenn á tímavarðaborðinu og fengu út að þetta væri fjórða liðsvillan. Þeir fengu svo bakþanka og það eftir að Njarðvík hafði misst boltann í hendur Keflavíkur og Keflavík sömuleiðis misst boltann af velli. Þá átti Njarðvík innkast.

Samkvæmt reglunum eiga dómarar að leiðrétta mistök ef vítaskot var ekki veitt en átti réttilega að veita. Það má hinsvegar einungis gera ef boltinn hefur ekki farið oftar en einu sinni í leik.  Þá er einnig tekið fram að til að breyta skýrslu þarf dómari að vera alveg viss í sinni sök og má hann leita upplýsinga hjá hverjum sem er.

Deilan snýst því fyrst og fremst um hvort boltinn hafi verið farinn oftar en einu sinni í leik.

Dómararnir töldu leikmann Njarðvíkur eiga rétt á að fara á vítalínuna á þeim tímapunkti þar sem Keflavík hafði sannarlega fengið fimm liðsvillur. Þar jafnaði leikmaðurinn metin þegar átta sekúndur voru eftir og Njarðvík vann svo eftir framlengdan leik.

Af þessum sökum er ekki hægt að ákveða tímasetningu leikjanna sem KKÍ vill að verði spilaðir á svipuðum tíma. Njarðvík á að mæta Haukum í undanúrslitum og Snæfell fær Stjörnuna í heimsókn. Ákvörðun verður tekin eftir að niðurstaða liggur fyrir vegna kærunnar.

Undanúrslit karla fara fram sunnudaginn 5. febrúar en þar mætast Tindastóll og KR annars vegar en Keflavík og KFÍ hinsvegar. Báðir leikirnir hefjast eins og venjan er í körfuboltanum klukkan 19.15.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert