Hópur Þórsara þynnist

Baldur Þór Ragnarsson er úr leik vegna kviðslits.
Baldur Þór Ragnarsson er úr leik vegna kviðslits. Morgunblaðið/Golli

Þór frá Þorlákshöfn, sem er í bullandi toppbaráttu í Dominos-deild karla í körfuknattleik, þarf að ljúka keppnistímabilinu án tveggja mikilvægra leikmanna. Benedikt Guðmundsson, þjálfari liðsins, sem fór alla leið í úrslit í fyrra, staðfesti þetta við Morgunblaðið í gær en um er að ræða þá Darra Hilmarsson og Baldur Þór Ragnarsson. „Hjá Darra færðist viðbeinið frá bringubeini. Þeir ætla ekki að setja hann í aðgerð en hann verður frá alla vega í tíu eða tólf vikur. Hann verður því ekkert meira með í vetur.

Baldur er kviðslitinn og fer í aðgerð á fimmtudaginn. Hann verður líklegast ekki meira með frekar en Darri. Hann gæti mögulega komið inn í þetta þegar líður á undanúrslitin eða í úrslitunum ef við verðum í þeirri baráttu. Hann þarf alla vega fimm til sex vikur til að jafna sig,“ sagði Benedikt en hans menn hafa orðið fyrir nokkrum skakkaföllum í vetur.

„Margt hefur gerst á þessu tímabili og þetta hefur verið þemað í vetur. Ég er búinn að vera í þessu í mörg ár og hef þjálfað nokkur lið en man ekki eftir svona meiðslatímabili hjá mínu liði. Við höldum ótrauðir áfram og erum ekki hættir,“ sagði Benedikt brattur.

Eins og gjarnan þegar forföll verða verður meiri ábyrgð lögð á herðar yngri leikmanna í hópnum. „Við notum þessa stráka sem við höfum. Við eigum unga og spræka stráka og við trúum því að þeir muni stíga fram og fylla þessi skörð. Áfram gakk,“ bætti Benedikt við en Þór er í 2.-3. sæti deildarinnar ásamt Snæfelli með 28 stig. Liðin eru aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Grindavíkur en fjórum stigum á undan Stjörnunni og Keflavík sem koma næst á eftir. Þrjár umferðir eru eftir af deildinni áður en átta liða úrslitakeppnin tekur við.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert