Byrja gegn bestu liðunum

Katrín Ómarsdóttir og Carli Lloyd í leik Íslands og Bandaríkjanna …
Katrín Ómarsdóttir og Carli Lloyd í leik Íslands og Bandaríkjanna í Algarve-bikarnum í fyrra. Ljósmynd/Algarvephotopress

Ísland mætir bæði gull- og silfurliði Evrópukeppninnar í knattspyrnu kvenna í fyrstu tveimur leikjum sínum í Algarve-bikarnum í Portúgal síðar í vetur. Ísland tekur þátt í mótinu áttunda árið í röð og í tíunda skipti alls.

Fyrsti leikurinn verður 5. mars gegn Evrópumeisturum Þýskalands og næsti gegn silfurliði Norðmanna 7. mars. Fjórða liðið í riðlinum er svo Kína, sem verður mótherji Íslands 10. mars.

Ísland var einmitt í riðli með Þjóðverjum og Norðmönnum í úrslitakeppni EM í sumar. Liðið gerði þá 1:1 jafntefli við Noreg en tapaði 0:3 fyrir Þýskalandi.

Í B-riðlinum leika síðan Bandaríkin, Japan, Danmörk og Svíþjóð. Fimm af átta bestu landsliðum heims, samkvæmt heimslista FIFA, eru því með á mótinu en Bandaríkin, Þýskaland og Japan eru þar í þremur efstu sætunum, Svíar í sjötta og Norðmenn í áttunda sæti. Danir eru í 13. sæti, Kínverjar í 18. og Íslendingar í 19. sæti. Enda er Algarve-bikarinn sterkasta mót heims ár hvert fyrir utan heims- og Evrópukeppni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert