Magnús: Þetta var bara ömurlegt

Magnús Þór Gunnarsson setti niður fjóra þrista í 3. leikhluta …
Magnús Þór Gunnarsson setti niður fjóra þrista í 3. leikhluta en hafði annars hægt um sig. mbl.is/Golli

„Við vorum langt frá því að vera í botni allan leikinn. Við vorum heilt yfir bara lélegir,“ sagði Keflvíkingurinn Magnús Þór Gunnarsson eftir tapið gegn Stjörnunni í 8-liða úrslitum Dominos-deildarinnar í körfuknattleik í kvöld. Stjarnan er nú með 1:0-forskot í rimmunni en vinna þarf þrjá leiki.

Stjarnan var 11 stigum yfir í hálfleik, 43:32, en Keflavík komst yfir í þriðja leikhluta. Stjarnan fagnaði að lokum sex stiga sigri, 87:81.

„Við náðum smákafla þar sem við sýndum hversu góðir við erum en það dugaði bara í einhverjar nokkrar mínútur. Ef maður vissi af hverju þetta væri svona þá hefðum við bara lagað það í fyrsta leikhléi, en það er bara ómögulegt að svara því af hverju við mættum svona lélegir,“ sagði Magnús.

„Við spiluðum vel þarna um tíma í þriðja leikhluta en svo hættum við bara að gera það. Það var nóg orka eftir og menn alls ekkert þreyttir. Þetta var bara ömurlegt,“ bætti Magnús við. Hann sagði það ekki hafa áhrif að Andy Johnston, þjálfari Keflavíkur, tæki út leikbann í kvöld.

„Það voru tveir góðir þjálfarar í staðinn þannig að það skipti engu máli,“ sagði Magnús en Falur Harðarson og Jón Norðdal Hafsteinsson stýrðu Keflavík í kvöld.

Keflavík hefur fallið úr leik í 8-liða úrslitunum gegn Stjörnunni síðustu tvö ár. Því kom á óvart hve liðið virtist illa gírað fyrir leikinn í kvöld.

„Það á ekki að þurfa að mótivera neinn fyrir úrslitakeppni, hvort sem það er gegn Stjörnunni eða öðru liði. Maður á að koma og njóta þess að spila. Það fá ekki allir þetta tækifæri. Ég ætla að vona að við tökum okkur bara saman núna, tökum æfingu í fyrramálið og byrjum upp á nýtt. Núna erum við undir en þetta var bara einn leikur. Ég vona bara að Keflvíkingar mæti í Garðabæinn og verði alveg brjálaðir,“ sagði Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert