Teitur: Verðum að koma okkur niður á jörðina

Teitur Örlygsson stýrði sínum mönnum til kærkomins sigurs í kvöld.
Teitur Örlygsson stýrði sínum mönnum til kærkomins sigurs í kvöld. mbl.is/Golli

„Við urðum að vinna hérna ef við ætlum okkur lengra í þessari keppni. Ég er bara hæstánægður,“ sagði Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar eftir að liðið sótti sigur til Keflavíkur í kvöld, 87:81, í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik.

Keflavík hafnaði í 2. sæti í deildinni en Stjarnan í því sjöunda. Það var hins vegar ekki að sjá í leiknum í kvöld, sér í lagi í fyrri hálfleik, en staðan að honum loknum var 43:32.

„Við stjórnuðum þessu í fyrri hálfleik fannst mér og munurinn hefði alveg getað verið meiri. Við skutum boltanum ekkert vel utan af velli,“ sagði Teitur.

„Við vorum vel virkir og vel undirbúnir. Við þekkjum Keflvíkinga vel, erum búnir að spila marga leiki á móti þeim með Craion og Lewis, þannig að það kemur okkur ekkert á óvart. Við misstum samt einbeitinguna illa í byrjun seinni hálfleiks, gerðum miklar vitleysur í „skrínum“ og svona sem við höfðum farið í gegnum, og það lagaðist þegar leið á,“ sagði Teitur en Keflavík komst yfir fyrir lokafjórðunginn og allt útlit fyrir að sigurinn væri að fjara frá Stjörnumönnum.

„Það hefur oft gerst hjá okkur en núna fannst mér strákarnir flottir og einbeittir, og við náðum bara að stoppa í þetta, og láta leikinn snúast um það sem hann á að snúast. Spila okkar leik og hafa okkar tempó. Þá erum við bara betri en þeir,“ sagði Teitur sem er staðráðinn í að láta þennan mikilvæga útisigur telja en vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram.

„Ég sagði við strákana inni í klefa að við yrðum að koma okkur niður á jörðina. Við erum að spila í seríu. Það fást engin tvö stig fyrir þennan leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert