Finnur: Lengjum góðu kaflana

Demond Watt KR-ingur sækir að körfu Snæfells en Sigurður Þorvaldsson …
Demond Watt KR-ingur sækir að körfu Snæfells en Sigurður Þorvaldsson og Sveinn Arnar Davíðsson eru til varnar. Ljósmynd/Eyþór Benediktsson

Finnur Freyr Stefánsson þjálfari KR-inga var að vonum ánægður með öruggan sigur sinna manna í Stykkishólmi í kvöld. Þeir sigruðu þá Snæfell, 99:85, í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta og eru komnir í góða stöðu, með 2:0-forystu.

„Við erum búnir að eiga þessa tvo svona ágætis heildarleiki og það sem er líkt í þeim er að það koma góðir kaflar í leikjunum sem skila okkur forskoti og gefa okkur sigur. Heilt yfir getum við spilað betur og viljum bæta okkur leik eftir leik,“ sagði Finnur við mbl.is.

„Demond Watt átti góðan leik hérna í kvöld og heildarframmistaðan mjög góð. Það skiptir máli að byrja sterkt í næsta leik og við förum yfir okkar atriði bæði í varnarleik og sóknarleik, bætum í og gerum aðeins betur í að lengja góðu kaflana og stytta þá slæmu.  Ég vonast bara eftir troðfullu húsi af KR-ingum og Hólmurum á fimmtudag og verð vonsvikinn annars,“ sagði Finnur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert