Þór sigrar Íslandsmeistarana

Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Grindavíkur.
Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Grindavíkur. Eggert Jóhannesson

Rétt í þessu var öðrum leik Þórs og Grindavíkur að ljúka. Þórsarar gerðu sér lítið fyrir og unnu góðan sigur, 98:89, í vægast sagt undarlegum en jafnframt spennandi leik. Dómarar leiksins komu nokkuð mikið að honum og mátti greina mikil vonbrigði Grindvíkinga með þeirra frammistöðu strax að leik loknum, og jú, meðan á honum stóð líka.

Liðin mætast í þriðja leiknum á fimmtudaginn kl. 19:15 í Grindavík og ljóst að þá verður barist til síðasta blóðdropa.

Það var í öðrum hluta sem heimamenn náðu undirtökunum í leiknum en 14 stiga forysta liðsins í hálfleik fór langt með liðið í þessum leik því í seinni hálfleik missti liðið flugið og um tíma virtust Þórsarar að vera að klúðra leiknum. Þeir náðu hinsvegar að koma sterkir inn þegar mest á reyndi og það nægði til að tryggja sigur. Frábær leikur Sovic, Emils, Tómasar og Ragnars nægði til sigurs í kvöld. Áhlaupið sem allir biðu eftir frá Grindavík kom svo um munaði og erfitt að henda reiður á af hverju liðsmönnum tókst ekki að klára leikinn; pirringur út í dómara leiksins hjálpaði liðinu ekki og jafnvel þótt liðsmenn hafi eitthvað til síns máls í þeim efnum er ljóst að hugarfar Íslandmeistaranna var ekki kristaltært þegar mest á reið.

Grindvíkingar náðu aldrei sínum takti í leiknum. Ekki fyrr en of seint náði liðið upp þeirri vörn sem það er þekkt fyrir og þá í aðeins stutta stund. Jóhann, Ólafur, Clinch, Siggi og Ómar voru allir sæmilegir en geta mun betur sem lið. Besti leikmaður liðsins í kvöld var Jón Axel Guðmundsson, sem átti frábæran dag á báðum endum vallarins.

Fylgst var með leiknum hér á mbl.is.

40. Jón Axel skorar aftur og Sovic setur bæði vítin sín niður, 98:89. Leik lokið.

40. Jón Axel skorar, 92;87. Brotið á Sovic sem setur bæði og klarar leikinn. 14 sekúndur eftir, Cook á leiðinni á línuna, setur bæði og staðan 96:87

40. Tómas setur bæði og jóhann skorar strax. 92;85 með aðeins 30 sekúndur eftir.

40. Raggi setur fyrra en klikkar úr seinna. Jón Axel fær hinsvegar á sig villu í baráttunni um frákastið og Tómas fer á línuna í stöðunni 90:83

40. Klaufalegt skot frá Clinch, Raggi tekur frákastið og Ómar brýtur á honum; tvö víti fyrir Natvélina og 5 villur á Ómar. Þetta eru alveg hreint makalausar mínútur í gangi núna. Raggi getur komið sínum mönnum í 8 stiga forystu með 40 sekúndur eftir! Staðan fyrir vítin 89:83

39. Bæði lið að klikka þessa stundina. Klaufagangur í sókninni.

38. Gestirnir fá tvær tilraunir en klikka! Cook keyrir í gegn, skorar og fær víti að auki!!! 89:83

38. Raggi skorar úr góðu skoti af blokkinni og síðan missa gestirnir boltann klaufalega! Stemningin er kominn til heimamanna, sem geta komið sér í góða stöðu fyrir síðustu tvær mínútur leiksins ... leikhlé Grindavík! Staðan 86:83

37. Ómar skorar og Raggi svarar um hæl, 84:83 og spennan orðin svakaleg.

37. Sovic setur risaþrist fyrir heimamenn og allt að verða vitlaust hérna!!! 82:81!

36. Grindavík eru að snúa þessum leik sér í vil, hægt og rólega. Baldur gerir vel í að fiska villu á Daníel Guðmundsson. Baldur setur annað, 79:81

36. Risaþristur frá Jóni Axel sem Natvélin svarar með tvist. 78;81

35. Gestirnir skora en brjóta síðan á Halldóri sem setur bæði vítin, 76:78

34. Ólafur ver skottilraun Cook og allt ætlar um koll að keyra. Tómas gerir vel og skorar, 74:76

33. Jóhann keyrir í gegn, skorar og fær víti ... Grindvíkingar eru að taka völdin á vellinum þessa stundina. 72:75 og Jóhann á eftir að fara á línuna. Varnarleikur gestanna hefur harðnað til muna milli hálfleikja og hefur riðlað góðum sóknarleik heimamanna frá því í fyrri hálfleik það mikið að þeir virðast ekki geta náð sama dampi aftur.

33. Eftir aðra rekistefnu dómara hafa þeir dæmt óíþróttamannslega villu á Sovic. Jón Axel setur annað vítið niður og Clinch skorar líka og kemur gestunum yfir 72:73

32. Ólafur jafnar leikinn fyrir gestina, 70:70. Sovic kemur sínum mönnum aftur yfir með vítum, 72:70

31. Jón Axel setur eitt víti niður á meðan Tómas klikkar úr báðum sínum. Hilmir Kristjánsson skorar eftir mikla baráttu undir körfu heimamanna, 69:68

30. Cook skorar úr erfiðu skoti. Grindavík fær síðasta skotið og Sovic ver skot Ómars. Staðan fyrir síðasta hlutann er því 69:65 og alveg klárt að þessi leikur endar á dramatískan hátt.

30. Ólafur skorar og heimamenn klúðra næstu sókn sinni hræðilega en hún endar á óíþróttamannslegri villu á Baldur og Jón Axel skorar, 67:65

29. Jón Axel skorar fyrir gestina og Baldur fær vítaskot hinum megin en setur aðeins annað þeirra, 67:61

28. Mikil barátta núna, mörg skot klikka og bæði lið að reyna að eigna sér veldissprota leiksins.

27. Tómas setur víti, 66:59

27. Baldur keyrir í gegn og skorar, 64;56 en Clinch setur þrist, 65:59

26. Grindvíkingar eru að setja í annan gír! Clinch setur þrist og varnarleikur liðsins breyst í skrímsli núna. Staðan 62:56 og á næstu mínútum kemur í ljós úr hverju heimamenn eru gerðir.

25. Sigurður Þorsteinsson fær sína fimmtu villu og Grindvíkingar eru vægast sagt æfir af reiði hérna.

25. Ómar að fá sína fjórðu villu. Emil Karel með annan þrist og gestirnir kasta boltanum frá sér í næstu sókn. 62:50

24. Núna er áhlaup Grindvíkinga hafið fyrir alvöru. Jóhann skorar og fær víti, staðan 59:50 og klaufagangur á heimamönnum þessa stundina í sókn.

24. Siggi fær á sig sína fjórðu villu, Grindvíkingum er ekki skemmt!!!

23. Risastór og kærkominn þristur frá Jóhann Ólafs en heimamenn svara strax með góðum tvist undir körfunni. 59:43

22. Ómar brýtur á Nat-vélinni eftir frábæran undirbúning Sovic en klikkar úr báðum vítum.

21. Bæði lið klaufaleg í fyrstu sóknum sínum. Tómas Tómasson setur þrist til að opna fyrir flóðgáttirnar, staðan 57:40

Leikhlé: Þórsarar hafa verið mun sterkari í þessum leik. Liðið hefur náð að halda sóknarvopnum Grindavíkur í skefjum og ná uppi góðum sóknartakti sem skilar 54 stigum í hálfleiknum. Emil Karel hefur komið sterkur inn en Tómas, Sovic og Raggi hafa einnig verið mjög öflugir. Cook hefur verið nokkuð rólegur og mun líklega láta meira að sér kveða í seinni hálfleik.

Grindvíkingar hafa ekki náð neinum takti í leiknum en alveg ljóst að þeir munu koma með lágmark eitt afar öflugt áhlaup í seinni hálfleik. Það sem skiptir mestu eru fyrstu 5 mínútur hálfleiksins; á þeim sést oft í hvert stefnir og því mikilvægt fyrir heimamenn að vera með sálartetrið tilbúið í það sem Grindavík mun óhjákvæmilega gera í seinni hálfleiknum: Hörð áhlaup frá fyrstu mínútu seinni hálfleiks. Grindavík leggst ekki niður hérna og mun koma glerhart til leiks núna.

20. Síðasta skot heimamanna klikkar en alveg ljóst að þeir hafa verið betri aðilinn og þurfa Grindvíkingar að grafa djúpt í reynslubankann til að klóra sig aftur inní þennan leik.

Hálfleikstölur 54:40 í bráðskemmtulegum leik.

20. eftir mikinn darraðardans ná gestirnir sóknarfrákastinu, sem endar hjá Clinch og hann setur dýrmætan þrist fyrir gestina. 54:40.

19. Siggi fær dæmda á sig klaufalega villu og Grindvíkingar svara þeim dómi með því að fá tæknivillu dæmda á sig í kjölfarið, Jóhann Ólafsson reif kjaft og Sovic setur þrjú af fjórum vítum niður. staðan 52:36

19. Emil Karel með annan þrist! Siggi svarar um hæl, staðan 49:36 og gestirnir þurfa að hafa sig alla við að halda uppi þessu háa tempói sem Þórsarar spila á þessa stundina.

18. Baldur stelur boltanum, setur annað vítið sitt niður. Siggi fær víti eftir brot inni í teig, setur bæði og staðan 46:34

18. Tómas setur stóran þrist sem Grindvíkingar svara með tvist. Þá kemur Emil Karel upp byssuna og setur enn stærri þrist! Staðan orðinn hættuleg fyrir gestina, 45:32, en alveg ljóst að flest gengur gegn Grindavík núna og liðið þarf virkilega á góðu áhlaupi að halda núna.

17. Grindvík skorar eftir að taka 3 sóknarfráköst í sömu sókninni! Það er dýrt að hafa Ragga á bekk heimamanna, svo mikið er víst.

17. Staðan núna orðin 39:28 eftir rekistefnu dómara. Ég játa skilningsleysi í þessu máli og tjái mig því ekki frekar um það.

16. Grindvíkingar afar ósáttir þessa stundina með dómara leiksins. Sovic skorar, Jóhann svarar hinum megin en velgengni heimamanna heldur áfram þegar Halldór Hermannsson skorar og fær víti að auki! Staðan núna 41:28 þegar dómarar leiksins taka sjálfir leikhlé til þess að greiða úr einhverri flækju sem myndaðist í kringum villu sem dæmd var á Ólaf Ólafsson og víti sem Sovic tók; niðurstöðu er að vænta von bráðar.

16. Cook labbar í gegnum vörn Grindavíkur, klikkar úr galopnu sniðskoti en fær víti. Setur annað en fálm leikmanna í boltanum kostar að seinna vítið er dæmd tveggja stiga karfa, staðan orðin 37:26 fyrir heimamenn sem eru að gera góða hluti á báðum endum vallarins.

15. Siggi Þorsteins klikkar undir körfunni og Emil Karel setur langan þrist! 34:26 og heimamenn að komast í flottan fluggír.

Clinch klikkar úr opnu skoti fyrir gestina. Raggi Nat fær sína þriðju villu og yfirgefur völlinn aftur; alls ekki góð tíðindi fyrir heimamenn en Raggi hefur spilað afar vel.

14. Baldur skorar, 31:26 og stemningin greinilega heimamanna núna.

13. Ólafur skorar fyrir gestina eftir baráttu í sóknarfráköstunum, 27:26. Raggi Nat er kominn aftur inn á, enda þurfa þeir að laga frákastastöðuna; Grindavík hefur verið að fá 2-3 skot í hverri sókn uppá síðkastið.

12. Baldur Ragnarsson skorar með því að keyra upp að körfunni, greinilega skilaboð Benna þjálfara að leikmenn eigi að ráðast að körfunni. Staðan 27:24

11. Bæði lið berjast mjög vel í sóknarfráköstunum og boltanum er oft haldið á lífi með þessari baráttu.

10. Heimamenn enda fyrsta hluta með körfu. Staðan 25;23 og ljóst að þetta verður spennandi leikur. Heimamenn mæta Íslandsmeisturunum vel í vörninni og sóknin ansi beinskeytt.

9. Emil Karel skorar frábæra körfu, „coast to coast“, og Ómar kastar boltanum út af fyrir gestina. Jón Axel Guðmundsson setur stóran þrist fyrir gestina og hleypir lífi í sína menn. staðan orðin 20:19 í afar hressandi boltaleik.

8. Þorleifur minnkar muninn og fiskar svo sóknarvillu á Cook. 18:13. Þorleifur er borinn af velli og virðist hafa meitt sig nokkuð alvarlega. Bróðir hans, Ólafur, skorar góðan tvist og staðan 18:15.

7. Staðan er núna 18;11 eftir gott sóknarfrákast og körfu frá Tómasi Tómassyni.

6. Natvélin fær sína aðra villu og sest á bekkinn. Ómar Sævarsson setur bæði og staðan 12:11 í hörkuleik. Emil Karel setur tvist fyrir heimamenn og Cook stelur boltanum og setur sniðskot, staðan 16:11 og flest að ganga vel upp fyrir heimamenn, sem stela boltanum aftur og freista þess að ná mestu forystu leiksins.

5. Þórsarar spila grimma vörn og eru sérlega ákveðnir í sókninni. Grindvíkingar finna sig ekki vel en það er alls ekkert hættuástand í gangi hjá liðinu. Glæsilegt spila hjá heimamönnum og Sovic skorar, 12:9

4. Brotið á Ragga Nat, umdeild villa svo ekki sé meira sagt. Setur annað, 9:7 fyrir heimamenn.

3. Siggi Þorsteins skorar, fær víti og skorar og jafnar leikinn. Natvélin nær öðru sóknarfrákasti og skorar. Eftir mörg sóknarfráköst nær Ólafur Ólafs að setja þrist ... staðan 8:7

2. Mike Cook keyrir í gegn og fær vítaskot, setur bæði, staðan 4:0 heimamenn. Grindvíkingar klaufalegir í sóknum sínum og kasta boltanum bara frá sér.

1. Raggi Nat opnar leikinn með sóknarfrákasti og körfu, 2:0

5 mín. í leik: Styrkur Grindvíkinga liggur í þéttri vörn og skipulögðum sóknarleik og þessir strákar hafa unnið allt sem hægt er að vinna; styrkleiki sem á sér ekki sérstaka mælieiningu og aðeins hægt að sjá með berum augum í hverjum leik fyrir sig. Spurningin er þessi: sýna leikmenn þessa hlið í kvöld? Ef svo er verður róðurinn erfiður fyrir heimamenn í þessari seríu. Þórsarar verða að leggja allt í sölurnar í kvöld til að lifa þetta einvígi af lengur en í þrjá leiki.

10 mín. í leik: Fyrsti leikur liðanna fór „eftir bókinni“ en alveg ljóst að Þórsarar lögðust ekki  flatir á bakið í þeim leik og ætla sér ekkert annað en sigur. Erfitt verkefni, vissulega, en hárbeittur sóknarleikur liðsins getur gert bestu liðum deildarinnar skráveifur. Þórsarar vilja fá hraðan leik á meðan Grindvíkingar munu leitast við að stjórna hraðanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert