Átta leikja sigurganga Knicks á enda

Carmelo Anthony leikmaður New York Knicks skoraði 32 stig í …
Carmelo Anthony leikmaður New York Knicks skoraði 32 stig í nótt en það dugði ekki til sigurs. AFP

Eftir átta sigurleiki í röð urðu leikmenn New York Knicks að bíta í það súra epli í nótt að tapa fyrir Cleveland í jöfnum hörkuleik með sex stiga mun, 106:100, í NBA-deildinni í körfuknattleik. Knicks er þar með ennþá nokkuð frá því að eiga sæti í úrslitakeppninni víst. 

Jarrett Jack skoraði 31 stig fyrir Cleveland og Dion Waiters var með 22 stig. Carmelo Anthony var að vanda atkvæðamikill hjá Knicks með 32 stig. JR Smith var næstur með 18 stig.

Eftir fjóra tapleiki náði LA Lakers að vinna leik í nótt þegar það mætti Orlando Magic, lokatölur 103:96. Þetta var níunda tap Orlando-liðsins í röð.

Jordan Hill átti góðan leik fyrir Lakers og skoraði 28 stig og tók 13 fráköst. Nick Young kom næstur með 26 stig. Victor Oladipo skoraði 21 stig fyrir Orlando-liðið.

Sjö leikir voru á dagskrá NBA-deildarinnar í nótt. Úrslit þeirra urðu eftirfarandi:

Toronto - Atlanta 96:86
Minnesota - Phoenix 120:127
Denver - Washington 105:102
Sacramento - Milwaukee 124:107
Dallas - Brooklyn 104:107
LA Lakers - Orlando 103:96
New York Knicks - Cleveland 100:106

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert