Grátlegt tap í fyrsta leik hjá Sundsvall

Jakob Örn Sigurðarson freistaði þess að jafna metin í lokin.
Jakob Örn Sigurðarson freistaði þess að jafna metin í lokin. mbl.is/Árni Sæberg

Íslendingaliðið Sundsvall tapaði í æsispennandi leik við Uppsala í kvöld, 70:67, á heimavelli en þetta var fyrsti leikur liðanna í 8 liða úrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í körfuknattleik. Vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram.

Hlynur Bæringsson skoraði 11 stig fyrir Sundsvall og tók 5 fráköst, Jakob Örn Sigurðarson skoraði 10 stig og tók 3 fráköst, og Ægir Þór Steinarsson skoraði 4 stig og tók 3 fráköst.

Sundsvall var átta stigum undir fyrir lokafjórðunginn, 55:47, en Jakobi tókst að jafna metin 1 og hálfri mínútu fyrir leikslok með þriggja stiga skoti, 65:65.

Sundsvall komst svo yfir með körfu frá Mikael Lindquist en hann breyttist hratt úr hetju í skúrk þegar hann braut á Liam Rush í þann mund sem Rush jafnaði metin. Rush skoraði úr vítaskotinu sem hann fékk og kom Uppsala í 68:67 þegar hálf mínúta var eftir.

Jakob reyndi aftur þriggja stiga skot 20 sekúndum fyrir leikslok en það geigaði og Sundsvall varð því að brjóta af sér. Thomas Jackson nýtti bæði vítaskotin og kom Uppsala í 70:67. Jakob reyndi enn þriggja stiga skot í lokin, til að jafna metin, en það fór ekki niður og tap því staðreynd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert