Snæfell í úrslit eftir spennuleik

Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells fagnar innilega með leikmönnum sínum …
Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells fagnar innilega með leikmönnum sínum í leikslok í kvöld. Ljósmynd/Eyþór Benediktsson

Snæfell komst í kvöld í úrslit Íslandsmóts kvenna í körfubolta eftir sigur á Val í oddaleik liðanna í Stykkishólmi. Úrslitin urðu 72:66 fyrir Snæfell.

Leikurinn var hnífjafn allan tímann og mikil spenna. Valur hafði fjögurra stiga forskot eftir fyrsta fjórðung og bjó að því forskoti í jöfnum leik lengi vel, þar til í lok fjórða leikhluta þegar Snæfell skaust fram úr. Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir átti stjörnuleik hjá Snæfelli, hún var stigahæst með 21 stig, tók 12 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Hjá Val skoraði Anna Alys Martin flest stig eða 24. Bandaríski leikmaðurinn í liði Snæfells, Chynna Brown, lék ekki með liðinu í kvöld vegna meiðsla.

Snæfell mætir Haukum í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn 2014, en Haukar unnu Keflavík í hinni undanúrslitaviðureigninni, 3:0. Vinna þarf þrjá leiki í úrslitum til að verða Íslandsmeistari.

Fylgst var með gangi mála í leik Snæfells og Vals hér á mbl.is.

4. leikhluti, 72:66 (20:13)
40. 
Leik lokið með sex stiga sigri Snæfells, 72:66. Snæfell er því komið í úrslit.

38. Snæfell er komið yfir í fyrsta sinn í langan tíma. Staðan er nú 67:66 eftir að Hildur Kjartansdóttir setti niður tvö víti. Ágúst Björgvinsson þjálfari Vals tekur leikhlé. 1.20 mín eftir á klukkunni.

37. Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir jafnar leikinn með því að setja niður tvö vítaskot fyrir Snæfell. Hún er stigahæst Snæfellinga með 19 stig og staðan er nú 62:62.

34. Valskonur hafa haft forystuna nær allan leikinn. Þó þetta sé hörkuspennandi og hnífjafn leikur hefur Snæfelli ekki tekist að komast yfir í langan tíma. Nú er staðan 58:60.

3. leikhluti, 52:53 (13:11)
30. 
52:53 er staðan fyrir lokafjórðunginn. Allt getur gerst - gríðarleg spenna. Helga Hjördís Björgvinsdóttir endaði þriðja leikhlutann á vítalínunni fyrir Snæfell. Hún setti seinna vítaskotið niður og minnkaði þá muninn í eitt stig. Ef hún hefði líka sett fyrra skotið niður væri jafnt fyrir lokafjórðunginn.

28. Lítið breyst í Hólminum. Leikurinn áfram hnífjafn en Valur þó áfram með frumkvæðið. Staðan er 49:52.

24. Munurinn er ennþá svipaður á liðunum. Frekar jafn leikur, en Valur býr að fjögurra stiga forskotinu sem liðið náði í fyrsta leikhluta. Staðan er núna 43:47.

2. leikhluti, 39:42 (18:17)
20. 
Leikurinn er enn afar jafn. Aðeins munar þremur stigum á liðunum í hálfleik, 39:42 er staðan fyrir Val. Spennandi síðari hálfleikur framundan. Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir er komin með 13 stig fyrir Snæfell og Hildur Sigurðardóttir 12 en Anna Alys Martin með 14 stig fyrir Val og Guðbjörg Sverrisdóttir 9.

16. Snæfellingar saxa aftur á forskot Vals. Nú munar fimm stigum á liðunum, 31:36 standa leikar Valskonum í hag. Anna Alys Martin er komin með 14 stig fyrir Val.

12. Valsarar eru miklu sterkari en heimakonur í augnablikinu. Ekki nóg með að hafa skorað síðustu tíu stig fyrsta leikhluta heldur hafa Valsarar skorað fyrstu fimm stigin í 2. leikhluta og eru nú komnir níu stigum yfir, 21:30. 

1. leikhluti, 21:25 (21:25)
10. 
Fyrsta leikhluta er lokið. Allt galopið ennþá í leiknum sem er nokkuð sveiflukenndur enn sem komið er. Valur hefur fjögurra stiga forskot á Snæfell. Staðan er 21:25 eftir að Valur skoraði síðustu tíu stig fjórðungsins.

8. Snæfellingar eru heldur betur komnir í gang og hafa nú sex stiga forystu, 21:15. Helga Hjördís Björgvinsdóttir er allt í öllu hjá Snæfelli þessi andartökin og er komin með 9 stig og tvö fráköst.

6. Gera þurfti hlé á leiknum þar sem Sigmundur Már Herbertsson dómari varð að fara meiddur af velli og því tafðist leikurinn í nokkrar mínútur. Enginn varadómari var á staðnum og því þurfti Rúnar B. Gíslason eftirlitsmaður leiksins, sem jafnframt er formaður dómaranefndar KKÍ, að skella sér í dómarabúning og dæmir nú leikinn með Davíð Kr. Hreiðarssyni. Allt í járnum ennþá. Staðan er 15:15.

5. Snæfellskonur eru komnar í gang og hafa jafnað metin í 11:11 þegar Hildur Sigurðardóttir setti niður þriggja stiga körfu. Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir hefur líka átt fínann kafla og strax búin að skila 5 stigum og 2 stoðsendingum fyrir Snæfell.

3. Þetta byrjar betur hjá Valskonum sem eru nú komnar sex stigum yfir, 8:2. Ragna Margrét Brynjarsdóttir er komin með 4 stig fyrir Val.

2. Smáskjálfti í leikmönnum beggja liða í byrjun. Fyrstu stigin komu ekki fyrr en eftir rúmlega eina og hálfa mínútu þegar Anna Alys Martin setti niður tveggja stiga körfu og kom gestunum frá Reykjavík í 2:0.

Fyrir leik
19.00 
Chynna Brown er ekki á leikskýrslu hjá Snæfelli. Það gæti reynst mikil blóðtaka fyrir Hólmara í kvöld. Snæfell er aðeins með ellefu á skýrslu í stað tólf eins og má mest.

18.15 Hingað til hafa leikmenn ekki fengið nema einn sólarhring milli leikja í undirbúning. Nú er öldin önnur því fjórði leikurinn fór fram á föstudag og liðin hafa því fengið þrjá sólarhringa í undirbúning fyrir oddaleikinn og til að safna kröftum.

18.15 Snæfell vann fyrsta leikinn 95:84. Valur vann leik númer 2, 78:66. Snæfell náði svo aftur forystunni í einvíginu með sigri í þriðja leik, 81:67. Valur tryggði sér oddaleik með 82:56-sigri í fjórða leiknum.

Lið Snæfells: Edda Bára Árnadóttir, Hildur Kjartansdóttir, Eva Margrét Kristjánsdóttir, Silja Katrín Davíðsdóttir, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, Hildur Sigurðardóttir, Helga Hjördís Björgvinsdóttir, Berglind Gunnarsdóttir, Alda Leif Jónsdóttir, Rebekka Rán Karlsdóttir og Hugrún Eva Valdimarsdóttir.

Lið Vals: Guðbjörg Sverrisdóttir, Anna Alys Martin, Hallveig Jónsdóttir, Ragnheiður Benónýsdóttir, Þórunn Bjarnadóttir, Sara Diljá Sigurðardóttir, Unnur Lára Ásgeirsdóttir, Rut Herner Konráðsdóttir, Ragna Margrét Brynjarsdóttir, Kristrún Sigurjónsdóttir, Margrét Ósk Einarsdóttir og María Björnsdóttir.

Snæfell og Valur berjast í kvöld um að komast í …
Snæfell og Valur berjast í kvöld um að komast í úrslit Íslandsmóts kvenna í körfubolta. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert