KR of sterkt fyrir Snæfell

Demond Watt skorar fyrir KR gegn Snæfelli í leiknum í …
Demond Watt skorar fyrir KR gegn Snæfelli í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn

Þriðja leik KR og Snæfells í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik var að ljúka rétt í þessu í DHL-höllinni og skemmst frá því að segja að KR sigraði örugglega og þar með seríuna, 3:0.

Leikurinn var í raun aldrei mjög spennandi því KR tók völdin á vellinum snemma leiks og héldu um þá stjórnartauma út leikinn að undanskildum þremur til fjórum mínútum í fyrri hálfleik. Serían varð aldrei spennandi og nánast formsatriði fyrir KR að sópa þessari seríu undir teppið því Snæfellsliðið var aldrei tilbúið til að velgja sjóðheitum KR-ingum undir uggum.

Varnarleikur Snæfells átti ekki viðreisnarvon gegn þungum sóknarvopnum KR. 101 stig í svona leik sýnir best á hvaða stað þessi lið eru í dag. Snæfell átti aldrei von um sigur því baráttu-og liðsandinn orkuðu það einfaldlega ekki, til þess er KR of sterkt.

Hjá KR voru Pavel og Watt langbestu menn en Martin var einnig funheitur og átti frábæran dag á báðum endum vallarins.

Hjá Snæfell voru það Sigurður Þorvalds, Travis Cohn, Nonni Mæju og Finnur Magnússon sem áttu sæmilegan leik en liðsandi liðsins var aldrei í standi til þess að gera mikið meira, þetta vitum við núna eftir að hafa fylgst með liðinu í þessum þremur leikjum og má segja að þetta hafi kristallast í kvöld. Snæfell er því komið í sumarfrí en KR-ingar bíða úrslita í öðrum seríum til að fá á hreint hvaða lið þeir hitta í undanúrslitum.

Fylgst var með gangi mála hérna á mbl.is

40. KR er komið í undanúrslit eftir að hafa sópað Snæfell út í þriðja leik liðanna hérna í kvöld. Lokatölur eru 101:84

39. Óíþróttamannsleg villa dæmd á Þorberg, Pavel á línuna og setur annað, 97:84 og KR að komast í undanúrslit á mjög sannfærandi hátt.

38.  Martin setur vítin sín, 97:82 og þessi leikur er að fjara rólega út fyrir Snæfell. Þeir eru að fara í sumarfrí.

37. Siggi skorar úr hraðaupphlaupi, munurinn 12 stig, 94:82

36. Martin skorar og Pálmi klórar í bakkann með þrist. 94:79

35. Siggi klikkar úr galopnu skoti! Brynjar setur þrist, 90:76

34. Þessi munur er of mikill. Snæfell þarf að gera of mikið með of lítið í vopnabúrinu til að gera það með. Staðan er 87:76 eftir "3-point play" frá Nonna.

33. Brotið á Martin, sem fer á línuna. Snæfell vantar aðeins eitt gott áhlaup til þess að keyra sig inní þennan leik aftur. En þetta ætlar að reynast þeim afar erfittPavel keyrir inní teig og skorar, fær víti og staðan 85:72

32. Siggi setur annan þrist! 79:72

30. Nonni setur þrist! Siggi setur þrist! Vá! Allt í einu er þetta orðinn leikur. Helgi svarar með þrist og staðan fyrir lokahlutann 79:69.

29. Travis missir boltann klaufalega. Stefán skorar góða körfu fyrir gestina. 74:63

27. Nonni skorar, 69:59. Watt skorar aftur inní teig; alltof auðvelt fyrir KR að koma tuðrunni þarna inn. 74:61 eftir stóran þrist frá Helga! Leikhlé Snæfell! Snæfell eru ekki að gera góða hluti núna, hvorki í vörn né sókn. Vörnin er orðin hriplek og Ingi skiptir líklega aftur í maður á mann vörn. Sókn liðsins er tilviljunarkennd og kerfin eru ekki að rúlla vel hjá liðinu.

26. Brotið á Watt eftir of fljóta skottilraun Finns í sókninni. Snæfell verður að hafa meiri þolinmæði til að vinna á þessum mun, hann fer ekki í einni sókn. 68:57

25. Darri setur þrist og Siggi klikkar úr þrist! Martin setur annan þrist og kemur stöðunni í 67:57, ekki það sem Snæfell þurfti þessa stundina.

25. Travis keyrir í gegn og skorar! Það er lífsmark með gestunum núna og KR tekur leikhlél. Núna er frábært tækifæri fyrir gestina að stimpla sig inní þennan leik og láta KR-inga vita að þeir ætli sér að sigra þennan leik. Vörnin hefur skánað, þrátt fyrir að KR-ingar fá ítrekað opin skot ef þeir láta boltann ganga vel en þetta hafa gestirnir náð að trufla og uppskera í sókninni. Staðan 61:57

25. Siggi setur þrist úr horninu! 61:55

24. Pavel með galopinn þrist eftir góðar sendingar. Travis skorar og staðan 61:52.

23. Vörn gestanna stendur sig ágætlega þessa stundina og sóknin fylgir í kjölfarið; Siggi skorar úr horninu, 56:50

21. Ingi þjálfari hefur tekið á það ráð að setja 3-2 svæðisvörn, vonandi hjálpar það til að keyra varnarleikinn í gang. Í annarri sókn KR setur hinsvegar Helgi þrist. Siggi tekur sóknarfrákast og skorar, 56:48

Hálfleikur: Finnur, Siggi, Travis og Nonni hafa verið ágætir í sókninni í kvöld en liðsvörnin er ekki til staðar og þess vegna er afar erfitt að ímynda sér önnur málalok en KR sigur. Snæfell þarf að þétta varnarraðir sínar til muna og trufla sókn KR nægilega til að koma sér aftur inní leikinn; þetta tókst ágætlega á einum stuttum kafla í öðrum hluta en þarf að verða að varanlegum þætti liðsins í þessum leik til þess að nýtast því eitthvað.

Hálfleikur: Snæfell koma mér aðeins á óvart í kvöld; ég átti von á áberandi liðskrafti og stemningu en leikur liðsins hefur verið frekar hlédrægur og feiminn. Snæfell hefur fengið á sig 53 stig og slíkt er ekki vænlegt til árangurs í þessu húsi. Varnarbaráttan verður að eflast til muna ef vel á að fara fyrir gestina. Menn verða að byrja þar, grafa sig niður í vörninni og láta KR ekki komast upp með að skora svona auðveld stig inní teig. Þarna liggur lykill Snæfells að þessum leik; í varnarleiknum og þeirri liðsinnspýtingu sem þar er svo oft að finna.

20. Brotið á Watt inní teig! KR eru að fá boltann alltaf auðveldlega inní teiginn, svo einfalt er það nú. Gestirnir þurfa að fara að láta finna fyrir sér þarna því þetta getur ekki endað vel fyrir Snæfell ef þetta heldur svona áfram. Pavel klikkar úr síðasta skoti hálfleiksins og staðan í hálfleik er 53:46.

19. Finnur skorar inní teig. Um að gera að finna Finn oftar þarna þvi hann er sjóðheitur af þessu færi núna. Martin skorar hinum megin, 51:44

18. Pálmi skorar með hægri! Martin með stoðsendingu á Watt sem treður viðstöðulaust! 47:42 og gestirnir eru hægt og bítandi að missa heimamenn aftur fram úr sér.

17. Pavel setur þrist! 45:40 og Snæfell að missa dampinn núna.

16. Jafn leikur núna en stig Snæfells útheimta meiri orku á meðan KR-ingar fá sín of auðveldlega. Watt fær sendingu inní teig og skorar og fær víti. Þessi tegund stiga eru of algeng hjá KR. Travis setur þrist fyrir gestina og staðan 39:40

16. Siggi með stóran þrist! 34:34 eftir að Martin keyrir í gegn.

15. Watt kemur KR aftur yfir, 32:31.

15. Finnur setur annan þrist og kemur gestunum yfir í leiknum! 30:31

14. Finnur skorar aftur! 30:28

13. Jón Orri klikkar úr tveimur vítum en KR nær frákastinu. Jón Orri og Magni eru að halda lífi í boltanum eftir að skot ríður af! Vel gert Finnur! Setur þrist og minnkar muninn. 30:36

12. Snæfell mun ákveðnara núna: Sveinn skorar þrist og vörnin virðist að þéttast. Staðan orðin 28:23 og allt annað að sjá þetta hjá gestunum.

10. KR er mun betri aðilinn í leiknum en alveg ljóst að Snæfell getur betur og verða að spila betur til þess að fara ekki í sumarfrí eftir leik. STaðan 28:18

9. Staðan núna 24:16 og ljóst að varnarleikur gestanna þarf smá yfirhalningu. KR-ingar komast alltaf auðveldlega inní miðjuna og þar geta leikmenn gert mikinn usla.

8. Snæfell setur boltann á blokkina og Finnur fiskar villu á Watt, vel gert. Þetta er eitthvað sem þeir þurfa meira af; láta KR hafa fyrir því að spila vörn. 18:12

7. Nonni Mæju fær á sig klaufalega sóknarvillu. Gestirnir mega ekki mikið við svona óþarfa villum. Watt treður í annað sinn! 18:10

6. Watt treður eftir klikkað sniðskot! 13:8.
Helgi setur þrist fyrir heimamenn og Watt blokkar skot Stefáns Torfasonar útá bílastæði! 16:8

5. Nonni Mæju skorar úr góðu skoti og Snæfell eru að vakna aðeins til lífsins núna. Staðan orðin 11:8 en varnarleikur liðsins er ennþá á hælunum; KR-ingar komast of auðveldlega upp að körfunni.

3. Snæfell tekur leikhlé! Sóknir þeirra skila litlu þessar fyrstu mínútur. Gestirnir hitta illa og hlaupa ekki nægilega vel aftur í vörn og af þeim sökum hafa KR-ingar fengið mörg hraðaupphlaup og auðveldar körfur. Staðan 10:2

1. Demond Watt skorar fyrstu stig leiksins. Helgi Már skorar úr hraðaupphlaupi og Sigurður Þorvalds skorar úr skoti í horninu. Leikurinn fer nokkuð fjörlega af stað. Pavel reyndir að troða yfir leikmann Snæfells en skotið er varið og boltinn fer samt ofaní. Staðan 8:2

Dómarar leiksins eru Jón Bender, Eggert Aðalsteinsson og Ísak Ernir Kristinsson. Leikurinn er að hefjast.

5mín í leik: Það á að skipta gestina öllu máli að enda tímabilið á hárri nótu; tímabilið hefur verið nokkur vonbrigði verður að segjast en með sigri hérna í kvöld geta Snæfellsmenn breytt vetrinum. Fjórði leikurinn verður þá heima í Stykkishólmi og þar getur allt gerst. Ljóst er að til þess að slíkt gerist verða leikmenn að losa um þá stíflu sem hefur haldið aftur af þeim í þessari seríu.

30mín. í leik: Það eru ekki margir sem þora að spá Snæfelssigri hérna í kvöld; KR-ingar hafa til þessa sýnt hversu vel liðið er undirbúið og úrslit fyrstu tveggja leika þessara liða hafa endurspeglað þessa staðreynd nokkuð vel. Hinsvegar verður að hafa í huga að í hvert sinn sem lið eru komin með bakið upp við vegg leysist úr læðingi orka sem hefur einhverra hluta vegna legið í dvala. Snæfell hefur klárlega mannskapinn til þess að sigra hér í kvöld en spurningarnar eru alltaf þessar: hvar er hugarfar leikmanna staðsett? Eru leikmenn Snæfells tilbúnir að halda þessari seríu áfram?

18.15 - Velkomin með mbl.is í DHL-höllina þar sem viðureign KR og Snæfells hefst eftir nákvæmlega klukkutíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert