Memphis síðasta liðið í úrslitakeppnina

Zach Randolph var ánægður í lok leiks Memphis og Phoenix …
Zach Randolph var ánægður í lok leiks Memphis og Phoenix í nótt. AFP

Memphis Grizzlies varð í nótt sextánda og síðasta liðið til að tryggja sér sæti í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik með því að sigra Phoenix Suns á útivelli, 97:91.

Phoenix og Memphis voru í baráttu um áttunda sæti Vesturdeildarinnar og nú er sú barátta útkljáð þegar bæði lið eiga einn leik eftir. Phoenix er aðeins fjórða liðið í sögu NBA sem kemst ekki í úrslitakeppnina þrátt fyrir að vinna 48 leiki eða meira af 82 leikjum vetrarins.

Zach Randolph átti stórleik með Memphis en hann skoraði 32 stig og tók 9 fráköst. Markieff Morris skoraði 21 stig fyrir Phoenix.

Nick Young skoraði 41 stig fyrir LA Lakers sem náði að vinna Utah Jazz, 119:104, í uppgjöri botnliða Vesturdeildarinnar og forðaði sér þar með frá því að enda í neðsta sætinu þar.

Indiana Pacers varð sigurvegari í Austurdeildinni í nótt án þess að spila þar sem Miami Heat steinlá fyrir Washington Wizards, 114:93. Miami hvíldi bæði LeBron James og Chris Bosh og endar í öðru sætinu. Indiana er því með heimaleikjaréttinn fram að úrslitum Austurdeildar.

Úrslitin í nótt:

Philadelphia - Boston 113:108
Toronto - Milwaukee 110:100
Washington - Miami 114:93
Atlanta - Charlotte 93:95
Chicago - Orlando 108:95
Houston - San Antonio 104:98
New Orleans - Oklahoma 101:89
Utah - LA Lakers 104:119
Phoenix - Memphis 91:97
Golden State - Minnesota 130:120

Síðasta umferð deildarinnar fer fram aðfaranótt fimmtudags og þá liggur endanlega fyrir hvaða lið mætast í úrslitakeppninni. Núna er ljóst að Indiana mætir Atlanta og Houston mætir Portland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert