Síðasta kvöldmáltíð Njarðvíkinga í Grindavík

Earnest Lewis Clinch Jr. átti stórleik fyrir Grindavík í kvöld …
Earnest Lewis Clinch Jr. átti stórleik fyrir Grindavík í kvöld gegn Njarðvík. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Grindvíkingar notuðu Skírdagskvöld í að gefa nágrönnum sínum frá Njarðvík síðustu kvöldmáltíðina þennan veturinn á Íslandsmóti karla í körfuknattleik. Grindvíkingar spiluðu hreint stórkostlegan körfubolta á heimavelli sínum í Röstinni í kvöld og burstuðu Njarðvík 120:95 í oddaleik liðanna í undanúrslitum. Grindavík er því komið í úrslit Íslandsmótsins og mætir þar KR.

Leikmenn Grindavíkur mættu ákaflega einbeittir til leiks og virtust reiðubúnir að selja sig dýrt. Þeir voru fastir fyrir í vörninni og í fyrri hálfleik komust Njarðvíkingar örsjaldan í gegnum vörn Grindavíkur á meðan heimamenn settu upp skotsýningu.

Fljótlega í seinni hálfleik virtist það orðið ljóst að Grindavík ynni stórsigur og snemma í fjórða leikhluta rufu Grindvíkingar svo 100 stiga múrinn. Sigur Grindavíkur var í raun aldrei í hættu og leiki liðið jafn svakalega vel og það gerði í kvöld gegn KR í úrslitunum gæti Grindavík vel unnið Íslandsmeistaratitilinn þriðja árið í röð.

Fylgst var með gangi mála í leiknum í textalýsingu hér á mbl.is og má sjá hana hér fyrir neðan. Þá má finna tölfræðina úr leiknum í dálknum hér til hliðar.

4. leikhluti - 120:95 (24:28)
40. - 120:95. 
Leik lokið með stórsigri Grindavíkur, 120:95. Grindavík er því komið í úrslit og mætir þar KR-ingum.

36. - 110:82. Áhorfendur Njarðvíkur bíða þöglir í stúkunni eftir að kvöl þeirra ljúki í Grindavík á Skírdagskvöld, meðan stuðningsmenn Grindavíkur vonast sjálfsagt til að leiknum ljúki aldrei, svo mikið er stuðið hjá Grindvíkingum á vellinum.

33. - 100:72. Earnest Clinch og Ómar Örn Sævarsson leika vörn Njarðvíkur grátt þessar mínúturnar. Grindavík hefur rofið 100 stiga múrinn og rúmlega 7 mínútur eftir af leiknum takk fyrir.

3. leikhluti - 96:67 (34:26)
30. - 96:67. 
Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Grindavíkur getur leyft sér að hvíla sína bestu menn fyrir úrslitin gegn KR. Það þarf nokkur kraftaverk til þess að Njarðvík vinni þennan leik. Það er bara ekki að fara að gerast svo mikill er munurinn á þessum tveimur liðum í kvöld.

28. - 93:62. Frammistaða Grindavíkurliðsins er stórkostleg. Frábær sóknarleikur og ekki er vörnin síðri. Grindavík gæti vel rofið 100 stiga múrinn í þriðja leikhluta sem er með ólíkindum. En Grindvíkingar fara hreinlega á kostum í þessum leik og eiga þetta mikla forskot sitt svo sannarlega skilið miðað við frammistöðu.

25. - 84:53. Þriggja stiga karfa Jóhanns Árna Ólafssonar fyrir Grindavík. Útlitið verður sífellt verra fyrir Njarðvík.

25. - 81:53. Elvar Már Friðriksson setti niður þriggja stiga skot hjá Njarðvík en Grindavík svaraði með körfum Jens Valgeirs Óskarssonar. Eftir að Maiciej Baginski fékk svo dæmdan á sig ruðninginn hjá Njarðvík fóru Grindvíkingar á enn frekara flug og eru nú komnir 28 stigum yfir Njarðvík. Grindavík hefur í raun öll völd á vellinum.

22. - 69:45. Grindvíkingar fara betur af stað og skora sjö stig gegn fjórum Njarðvíkur í byrjun þriðja fjórðungs. Heimamenn hafa þetta allt í hendi sér.

2. leikhluti - 62:41 (24:22)
20. - 62:41. 
Njarðvík hafði boltann undir lok hálfleiksins og hafði fulla skotklukku til stefnu. Elvar Már Friðriksson tafði tímann en kom honum loks á Ágúst Orrason sem átti misheppnað þriggja stiga skot. Grindavík hefur því afgerandi 21 stigs forystu í hálfleik. Heimamenn virka einbeittir og öruggir í flestum sínum aðgerðum. Þeir gera hvað þeir geta til að kæfa sóknarleik Njarðvíkur og það hefur virkað vel í fyrri hálfleik að mestu.

19. - 60:40. Earnest Clinch skoraði fjögur stig í röð af vítalínunni fyrir Grindavík. Tracy Smith skoraði svo fyrir Njarðvík en Ómar Sævarsson svarði fyrir Grindavík.

17. - 54:38. Grindvíkingar hafa alveg náð að halda Tracy Smith hjá Njarðvík niðri. Hann er aðeins kominn með 2 stig. Elvar Már Friðriksson fékk hins vegar frítt þriggja stiga skot sem hann setti niður og minnkaði muninn í 51:38 en Earnes Clinch svaraði af bragði með þristi fyrir Grindavík. Hans fimmta þriggja stiga karfa.

16. - 49:32. Grindvíkingar fá aftur vind í seglin á ný og komast í 49:32 með körfu Sigurðar Þorsteinssonar sem er nú kominn með 13 stig.

14. - 43:30. Jóhann Árni Ólafsson skorar þriggja stiga körfu fyrir Grindavík, en Logi Gunnarsson svaraði því fyrir Njarðvík með að setja niður tveggja stiga skot.

13. - 40:28. Njarðvíkingar fá að eyða leiknum á vítalínunni. Elvar Már setur niður tvö víti og minnkar muninn frekar.

12. - 40:26. Maciej Baginski lagar stöðuna fyrir Njarðvík í 40:26 með því að setja niður tvö vítaskot. Mikil harka er í leiknum og ekki þarf mikið til að allt hreinlega sjóði upp úr.

11. - 38:21. Elvar Már Friðriksson skorar fyrstu tvö stig annars fjórðungs fyrir Njarðvík af vítalínunni.

1. leikhluti - 38:19 (38:19)
10. - 38:19. 
Earnest Clinch lauk leikhlutanum á því að setja niður tveggja stiga skot. Hann er kominn með 16 stig strax eftir fyrsta fjórðung, þar af er hann sett niður öll fjögur þriggja stiga skotin sín. Grindavík átti þennan fyrsta leikhluta nánast skuldlaust.

9. - 31:15. Enn auka heimamenn forskot sitt. Ómar Örn Sævarsson skoraði af vítalínunni og forysta Grindavíkur er strax orðin vænleg.

8. - 28:15. Þriggja stiga sýningin heldur áfram. Earnest Clinch setur niður þrist fyrir Grindavík og eykur muninn enn frekar.

7. - 23:13. Njarðvík á erfitt uppdráttar meðan Elvar Már Friðriksson leikstjórnandi liðsins er endalaust með tvo Grindvíkinga á sér. Jón Axel Guðmundsson skoraði síðast þriggja stiga körfu og kom Grindavík í 23:13.

5. - 18:12. Þriggja stiga sýning!!! Logi Gunnarsson minnkaði muninn í 15:9 fyrir Njarðvík með því að setja niður þriggja stiga skot. Earnes Clinch svaraði strax með þristi fyrir Grindavík en Logi Gunnarsson hlóð þá bara strax aftur í þrist fyrir Njarðvík og staðan er því núna 18:12 og Grindavík tekur leikhlé.

4. - 13:6. Earnest Clinch setti niður þriggja stig skot og kom Grindavík í 13:6. Siggi Þorsteins er kominn með 8 stig fyrir Grindavík.

2. - 8:3. Ísafjarðartröllið fer af stað með miklum látum fyrir Grindavík og kominn með sex stig af fyrstu átta stigum Grindvíkinga.

1. - 2:0. Grindavík vann boltann eftir uppkastið og Sigurður Gunnar Þorsteinsson skoraði svo fyrstu körfu leiksins og kom heimamönnum í 2:0.

Fyrir leik
0. - 
Stórkostleg stemning og mikil læti hér í Röstinni. Nú er aðeins mínúta þar til veislan hefst fyrir alvöru.

0. - Liðskynning er hafin með tilheyrandi látum.

0. - Hálftími þar til leikurinn á að hefjast og nú er setið í öllum sætum stúkunnar. Sjálfsagt reyna menn þó að troða ennþá betur í stúkuna.

0. - Grindvíkingar hita í augnablikinu upp með skotum á körfuna. Logi Gunnarsson stýrir upphitun Njarðvíkur þar sem leikmenn liðsins gera alls kyns hundakúnstir. Þrír leikmenn Njarðvíkur láta sig þó ekki muna um að rekja körfuboltann áfram sama hvað Logi lætur þá gera í upphitun.

0. - Enn eru 40 mínútur í leik, en aðeins örfá sæti laus fyrir áhorfendur í Röstinni.

0. - Leikmannahópana má finna hér fyrir neðan.

Grindavík: Jóhann Árni Ólafsson, Kjartan Helgi Steinþórsson, Ómar Örn Sævarsson, Daníel Guðni Guðmundsson, Hilmir Kristjánsson, Jón Axel Guðmundsson, Jens Valgeir Óskarsson, Earnes Lewis Clinch Jr., Hinrik Guðbjartsson, Magnús Már Ellertsson, Ólafur Ólafsson, Sigurður Gunnar Þorsteinsson.

Njarðvík: Ragnar Helgi Friðriksson, Brynjar Þór GUðnason, Ágúst Orrason, Egill Jónasson, Ólafur Helgi Jónsson, Elvar Már Friðriksson, Magnús Már Traustason, Tracy Smith Jr., Maciej Stanislav Baginski, Logi Gunnarsson, Hjörtur Hrafn Einarsson.

0. - Áhorfendur streyma að. Nú þegar tæp klukkustund er þar til leikurinn hefst eru þegar um 300 áhorfendur sestir í stúkuna hér í Röstinni. Þannig það má búast við því að það verði smekkfullt út úr dyrum á þennan leik þegar leikurinn verður flautaður á klukkan 19.15.

0. - Ef Njarðvík tapar í kvöld verður það jafnframt síðasti leikur liðsins undir stjórn Einars Árna Jóhannssonar sem hættir sem þjálfari liðsins eftir Íslandsmótið. Viðræður Friðriks Inga Rúnarssonar og stjórnar kkd. Njarðvíkur um að Friðrik Ingi taki við liðinu eru langt komnar.

0. - Grindavík hefur orðið Íslandsmeistari síðustu tvö ár meðan Njarðvík hefur ekki unnið Íslandsmótið síðan árið 2006.

Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson reynir að komast framhjá Jóhanni Árna …
Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson reynir að komast framhjá Jóhanni Árna Ólafssyni, Sigurði Gunnari Þorsteinssyni í Grindavík en Earnest Clinch Jr. fylgist með. Ljósmynd/Skúli Sigurðsson
Tracy Smith í liði Njarðvíkur í baráttunni við Sigurður Gunnar …
Tracy Smith í liði Njarðvíkur í baráttunni við Sigurður Gunnar Þorsteinsson hjá Grindavík. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert