Friðrik Ingi samdi við Njarðvík til fimm ára

Friðrik Ingi handalar samninginn við Njarðvíkinga.
Friðrik Ingi handalar samninginn við Njarðvíkinga. Ljósmynd/umfn.is

Friðrik Ingi Rúnarsson var í dag ráðinn þjálfari úrvalsdeildarliðsins Njarðvíkur í körfuknattleik og samdi hann til fimm ára við Suðurnesjaliðið. Hann mun stýra bæði karla- og kvennaliði félagsins. Þetta kemur fram á karfan.is.

Friðrik Ingi þjálfaði síðast fyrir átta árum en þá stýrði hann liði Grindavíkur en hann hefur undanfarin ár verið framkvæmdastjóri KKÍ en hætti nýlega störfum á þeim vettvangi.

„Ég er gríðarlega spenntur og svo einnig þakklátur fyrir þetta tækifæri og traust sem mér er sýnt, sagði Friðrik Ingi Rúnarsson í samtali við karfan.is.

„Þjálfun hefur alltaf verið stór partur í mínu lífi og náttúrulega ýmislegt og allt sem við kemur körfuboltanum. Samskipti mín í kringum körfuna voru náttúrulega mikil í mínu fyrra starfi hjá sambandinu. Ég var mikið í samskiptum við þjálfara og faglegur ráðgjafi afreksnefndar þannig að kannski má segja að þetta hafi legið beinast við hjá mér.  Ég verð að viðurkenna að á síðastliðnum árum hafa blossað upp ákveðin löngun að snúa aftur og vinna með leikmönnum og í þessu umhverfi sem mér finnst mjög gefandi og skemmtilegt,“ segir Friðrik Ingi.

Friðrik Ingi leysir Einar Árna Jónsson af hólmi en Einar Árni er þó ekki á förum frá félaginu því hann hefur verið ráðinn yfirþjálfari yngri flokka félagsins og er samningur hans til ársins 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert