Sverrir: Megum ekki láta ýta okkur svona út

„Það voru of margir slæmir kaflar hjá okkur og við þurfum að laga það fyrir föstudaginn,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Grindavíkur eftir tapið gegn KR í kvöld, í fyrsta leiknum um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik karla.

„Það eru áherslur í vörninni hjá okkur sem við þurfum að laga. Við þurfum líka að vera ákveðnari í sókninni, ekki vera að láta ýta okkur út úr hlutum heldur stjórna því sjálfir hvað við gerum í sókninni,“ sagði Sverrir.

Grindavík minnkaði muninn niður í aðeins 2 stig þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum en KR skoraði þá tíu stig í röð og gerði út um leikinn.

„Þá tóku þeir leikhlé og við komum út úr því engan veginn klárir. Þeir skoruðu auðveldar körfur og við svöruðum ekki hinum megin, svo munurinn varð aftur of mikill og við þurftum að fara að brjóta. Þá var þetta nánast farið. Ég hefði viljað að við spiluðum betur úr þessu, úr því við vorum komnir í þennan séns, en það þýðir ekkert að velta sér upp úr þessu,“ sagði Sverrir, strax farinn að huga að næsta leik sem er í Grindavík á föstudagskvöld.

Nánar er rætt við Sverri í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert