Tveir útsigrar í viðbót í NBA

Wesley Matthews hjá Portland hirðir boltann af Jeremy Lin hjá …
Wesley Matthews hjá Portland hirðir boltann af Jeremy Lin hjá Houston í leik liðanna í nótt. AFP

Allt puðið í 82 leikjum vetrarins, til að tryggja sér sem besta stöðu fyrir úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik, hefur farið fyrir lítið hjá hverju liðinu á fætur öðru í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Í nótt unnu bæði Portland TrailBlazers og Washington Wizards á útivelli og þar með hafa fimm af fyrstu átta leikjunum endað með útisigrum.

Portland sótti Houston heim og vann þar í hörkuspennandi framlengdum leik, 122:120, eftir að staðan var 106:106 eftir venjulegan leiktíma. Houston missti þar niður ellefu stiga forskot á lokamínútunum.

LaMarcus Aldridge fór hamförum í liði Portland og setti félagsmet í úrslitakeppninni með því að skora 46 stig, auk þess að taka 18 fráköst. Damian Lillard skoraði 31 stig og þeir tveir gerðu síðustu 25 stig liðsins í venjulegum leiktíma. Dwight Howard og James Harden skoruðu 27 stig hvor fyrir Houston en Harden hitti sérstaklega illa að þessu sinni.

Washington Wizards fór til Chicago og lagði þar Bulls, 102:93, með því að skora 30 stig gegn 18 í fjórða leikhluta. Nene skoraði 24 stig fyrir Washington en Kirk Hinrich og D.J. Augustin gerðu 16 stig hvor fyrir Chicago.

Úrslitin í fyrstu leikjum 1. umferðar hafa þar með orðið þessi, í svigum lokastaða liðanna í deildakeppninni:

Austurdeild:
Toronto (3) - Brooklyn (6) 87:94
Indiana (1) - Atlanta (8) 93:101
Miami (2) - Charlotte (7) 99:88
Chicago (4) - Washington (5) 93:102

Vesturdeild:
LA Clippers (3) - Golden State (6) 105:109
Oklahoma (2) - Memphis (7) 100:86
San Antonio (1) - Dallas (8) 90:85
Houston (4) - Portland (5) 120:122 (eftir framlengingu)

Það eru semsagt bara Miami, Oklahoma City og San Antonio sem hafa nýtt sér heimaleikjaréttinn og náð 1:0 forystu á heimavelli í fyrsta leik.

Óvæntustu úrslitin eru tvímælalaust ósigur Indiana gegn Atlanta á heimavelli en Indiana vann Austurdeildina á meðan Atlanta náði áttunda sætinu með lakasta árangri allra sextán liðanna sem komust í úrslitakeppnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert